138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á hjúskaparlögum og um brottfall laga um staðfesta samvist eða ein hjúskaparlög.

Með þessu frumvarpi er lagt til að ein hjúskaparlög gildi fyrir alla og lagt er til að lög um staðfesta samvist falli brott. Auk þess eru hér lagðar til breytingar á fjölmörgum lögum. Lagt er til að kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarkonu, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, teljist foreldri barns sem þannig er getið í stað kjörmóður.

Á fundum sínum hefur allsherjarnefnd fjallað um efni þessa frumvarps í býsna langan tíma og fengið til sín fjölda gesta úr ólíkum áttum, frá trúfélögum, samtökum samkynhneigðra og Stúdentafélagi hinsegin stúdenta. Ákvæði frumvarpsins um breytingar á hjúskaparlögum hefur verið rætt í þaula. Í stað þess að lögin gildi um hjúskap karls og konu er lagt til að þau gildi um hjúskap tveggja einstaklinga. Komu m.a. fram tillögur um að víkka út hugtakið hjón og halda þannig í hugtökin karl og kona í lögunum og tilgreina hjúskap karls og konu, konu og konu, karls og karls þannig að hin hefðbundna skilgreining stæði áfram. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu eftir allítarlegar umræður og viðræður við fjölda gesta að þessi tillaga gæti hugsanlega mætt sjónarmiðum þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið. Hins vegar yrði þá markmiðum frumvarpsins, um að afmá þann lagalega mun sem felst í mismunandi löggjöf, ekki náð og þannig yrði þeim mismun sem er í gildandi lögum viðhaldið. Þær breytingar sem gerðar hafa verið til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra allt frá setningu laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, hafa gegnt mikilvægu hlutverki í því að breyta gildismati þjóðarinnar gagnvart samkynhneigð. Meiri hlutinn telur að frumvarpið sé eðlilegt skref í þeirri vegferð að jafna stöðu sambúðarforma einstaklinga og að framsetning frumvarpsins um vísun til hjúskapar tveggja einstaklinga sé einföld og skýr.

Í störfum nefndarinnar var töluvert rætt um heimild eða skyldu presta þjóðkirkjunnar eða ólíkra safnaða til þess að vígja pör. Rætt var hvort æskilegt væri að skylda presta til þess að gefa saman pör af sama kyni. Niðurstaða nefndarinnar er sú að það falli undir mannréttindi viðkomandi presta og trúfrelsi þeirra að geta túlkað Biblíuna eða trú sína með þeim hætti að það stangist á við þeirra skilning að gefa saman fólk af sama kyni og gæti þess vegna brotið í bága við réttindi viðkomandi presta. Við bendum á að sambærileg ákvæði eru í lögum um heilbrigðisstéttir. Samkvæmt læknalögum er lækni heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni.

Meiri hluti nefndarinnar tekur fram að með frumvarpinu er réttur einstaklinga til kirkjulegrar vígslu tryggður þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns. Samkvæmt núgildandi lögum er presti eða vígslumanni heimilt að neita að gefa fólk saman án þess að gefa upp ástæðu. Það er því ekki verið að breyta neinu með þessari framkvæmd.

Við fjölluðum einnig um hjúskapinn sjálfan og hvort vígsla eigi að vera borgaraleg auk þess hvort hjón gætu fengið blessun tiltekinna trúfélaga eftir vígslu en við töldum ekki rétt að leggja það til að sinni.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir stóran hóp fólks sem vissulega hefur náð góðum árangri í réttindabaráttu sinni á undanförnum árum og ánægjuefni að það skuli vera komið að þessu skrefi. Ef að líkum lætur verður bráðum komið í lög á Íslandi að ein hjúskaparlög gildi fyrir alla óháð kyni og að hjónaband teljist á milli tveggja einstaklinga.

Undir þetta álit skrifa auk undirritaðs hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Ögmundur Jónasson, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson, og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara. Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Meiri hlutinn leggur til að þetta framfaraskref verði samþykkt.