138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það sem ég var hins vegar að reyna að fá hér fram er einmitt hvar þessi nýi spítali ætti þá að vera. Jú, jú, það má væntanlega reikna það nákvæmlega hvar hagkvæmast er að hafa hann. Ég sé það svæði ekki fyrir mér á Stór-Reykjavíkursvæðinu svo að ég segi það bara alveg eins og er, nema þá á knattspyrnuvellinum í Kópavogi eða eitthvað svoleiðis svo ég geri létt gaman að þessu.

Ég hef einnig áhyggjur af þessari umræðu hér og því sem kom frá hv. þingmanni um að það væri hægt að færa flugvöllinn og þá spyr ég: Hvert? Löngusker, ég gæti vel hugsað mér að hann yrði færður að Lönguskerjum. Þetta er sirka einn kílómetri ef ég man rétt, þetta er nánast sami staðurinn. Hefur hv. þingmaður reiknað kostnaðinn á bak við það? Hann talar um að þetta sé mjög dýrt land. Hvað kostar að byggja nýjan flugvöll? Er hv. þingmaður að tala undir rós og vill hann færa flugvöllinn til Keflavíkur, til dæmis? Ég leggst alfarið gegn þeim hugmyndum. Upp á heiði eins og rætt hefur verið um? Margir eru fylgjandi því en sýnt hefur verið fram á að völlurinn verði þá lokaður þeim mun meira fyrir landsbyggðarfólki. Ég vil benda á að jafnvel þó að þyrlur séu ágætar eru nú fæstir sjúklingar utan af landi fluttir með þyrlu, ég held að það sé bara brotabrot af þeim sjúklingum sem eru fluttir í þyrlu, langflestir fara í sjúkraflugi frá Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum svo einhverjir staðir séu nefndir. Flugvöllurinn í Aðaldal við Húsavík og á Vopnafirði og Þórshöfn eru einnig opnir fyrir sjúkraflug allt árið.