138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega mjög áhugaverð umræða um staðsetningu flugvallar í Reykjavík. Ég veit ekki alveg hvað það kemur staðsetningu á þessum nýja spítala við. Ég sagðist bara hafa efasemdir um staðsetninguna, það var það eina sem ég var að gera athugasemd við. Talið er að það kosti um 25–30 milljarða að byggja nýjan alþjóðaflugvöll, meira að segja með flugskýlum og öllu saman. Landið í Vatnsmýrinni kostaði í góðærinu sennilega 200 milljarða, ætli það sé ekki dottið niður í svona 80 milljarða? Það mætti þá selja það, landið í Vatnsmýrinni, byggja eitt stykki flugvöll og eitt stykki sjúkrahús fyrir afganginn.