138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Framhaldssagan heldur áfram, leikritið heldur áfram. Það eru allir að karpa um það sem gerðist í gær. Mig langar að velta því upp sem ég verð vitni að á þinginu þessa dagana og snýr að mínu viti einfaldlega að upplausn í þingstörfunum. Ég hef verið á vinnumarkaði í um 35 ár og unnið á þónokkrum stöðum um ævina en ég hef aldrei unnið á stað þar sem skipulagið hefur verið með þessum hætti. Ég hef áður sagt að ef Alþingi væri spítali væru allir sjúklingarnir löngu dauðir.

Það eru haldnir fundir þingflokksformanna og boðað á þá þótt forseti Alþingis viti að formenn þingflokka eða staðgenglar þeirra komist ekki á fundinn. Þegar beðið er um að fundinum verði frestað er því einfaldlega hafnað af forseta Alþingis. Eru þetta vinnubrögð sem þingflokkar á Alþingi sætta sig við? Það er verið að vinna drög að einhvers konar samkomulagi og 150 mál eru á lista sem hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra leggja fram. Við höfum lýst okkur fylgjandi þeim lista og lýst því yfir við forsætisráðherra að okkur hugnist að fá eitt atriði af þeim öllum í gegn á þessu þingi. Því var einfaldlega hafnað. Það er vaðið yfir fólk. Samræðustjórnmál og samráðsstjórnmál Samfylkingarinnar virðast snúa að því að þau leggja fram það sem þeim hentar og krefjast þess að aðrir verði við því. Í gangi er grímulaust meirihlutaofbeldi og það er vaðið yfir minni hlutann á skítugum skónum. Það eru alls konar atriði sem þarf að bæta í stjórn þingsins og ég hvet þingflokksformenn til að standa í lappirnar gegn ægivaldi meiri hlutans og reyna að koma (Forseti hringir.) skikki á vinnubrögðin í þessari stofnun, því að þetta er til skammar.