138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:20]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þarna eru á ferðinni mikilvægar lýðræðisumbætur sem eru beinlínis í anda þeirra skilaboða sem við fengum t.d. úr rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið, mikilvæg lagfæring á stjórnmálamenningu landsins sem rannsóknarskýrsla Alþingis sagði að væri vanþroskuð og þarfnaðist mikillar lagfæringar.

Þegar ég tók við formennsku í allsherjarnefnd fór fram umræða í nefndinni um þau mál sem nefndarmönnum fyndist mikilvægast að klára í þessari lotu þingstarfa. Það var mál manna að þar væru margvíslegar lýðræðisumbætur sem menn þyrftu að ráðast í og taka sérstaklega til hendinni í málefnum skuldara og skuldugra heimila. Þannig hefur verið forgangsraðað í störfum nefndarinnar frá því að ég tók þar við formennsku.

Vissulega er þarna á ferðinni mikil lýðræðisbót og málið verður tekið til umfjöllunar í störfum nefndarinnar á þessu þingi, þó ekki í þessari viku því þetta þing stendur fram í september og það liggja ekki beinlínis fyrir sveitarstjórnar- eða alþingiskosningar svo mér sé kunnugt. (Gripið fram í: Það er aldrei að vita.) Aldrei að vita, það er rétt hjá hv. þingmanni, en ég tel að við höfum tóm til að fara betur yfir málið. Ég minni líka á að það komu fram mikil andmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélögum víðs vegar um landið og þingmönnum hér í salnum við því að fara fram með persónukjör svo skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar. Ég var ekki sammála þeim sjónarmiðum en engu að síður var fallist á þau og þess vegna var beðið með málið. Það er til vitnisburðar um þau samræðustjórnmál sem tíðkast í tíð núverandi meiri hluta.