138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

efling græna hagkerfisins.

520. mál
[13:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. formanni iðnaðarnefndar, þetta mál hefur fengið stuðning úr öllum flokkum. Flutningsmenn voru úr öllum flokkum og það var samstaða í iðnaðarnefnd, sem ég reyndar tek fram að ég á ekki sæti í, en það var samstaða allra flokka þar um afgreiðslu málsins, enda er þetta tillaga sem felur í sér að það verði hafin vinna sem lýtur að markmiðum sem við hljótum öll að styðja. Ég get hins vegar ekki annað en vakið athygli á því að þó að allir geti fallist á þau fögru markmið sem þarna eru sett er margt mjög óljóst í þessu máli og þarna eru settar fram mjög háleitar yfirlýsingar og háleit markmið en erfitt að festa hönd á einhverju konkret í þessu. Ég sé samt ekki ástæðu til annars en að styðja málið og geri ráð fyrir því (Forseti hringir.) að það muni flokksfélagar mínir einnig gera.