138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er alltaf mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn en ekki síst á tímum niðurskurðar. Landspítalinn er það öryggisnet sem öll heilbrigðisþjónusta á Íslandi verður að geta treyst á. Við skulum muna það að þriðja hver króna sem veitt er til heilbrigðisþjónustu á Íslandi fer um bókhald spítalans og það er mikilvægt að reka hann með sem allra hagkvæmustum hætti og skapa þeim sem stjórna spítalanum á hverjum tíma aðstæður til þess. Það er ljóst að rekstur á mörgum stöðum er ekki hagkvæmur eða dregur mjög úr hagkvæmni. Ný bygging mun auk þess bæta aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsmenn sem ekki er vanþörf á.

Til þess eru vítin að varast þau. Við höfum oft farið í risaverkefni án nægrar fyrirhyggju og ég vil þakka hv. fjárlaganefnd og ekki síður verkefnisstjórn um byggingu spítalans fyrir að hafa búið svo um hnúta að stjórnvöld geti á hverjum tíma tekið upplýsta ákvörðun um framhald og hvert stig í gangi þessarar mikilvægu byggingar.