138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða um fyrirtæki, vegna þess að þau eru yfirleitt með framreiknað tap á móti niðurfellingum á skuldum sem koma fram. En varðandi einstaklinga þá lýsir ræða hæstv. ráðherra miklum misskilningi á hvernig því er háttað. Fyrir margt löngu, tveimur áratugum eða svo, var hætt að leyfa fólki að draga vexti og verðbætur frá skatti, tekjuskatti. Það eru ákveðnar ástæður fyrir því. Um leið og það var gert þá breyttist allt, öll myndin. Þegar fólk fær niðurfelld t.d. bílalán hefur það ekki getað dregið frá skatti hækkunina sem verið er að fella niður. Þetta er rökleysa, frú forseti, að tala um það að niðurfelling á skuldum sé skattskyld vegna þess að hækkun á lánunum var ekki til frádráttar. Sömuleiðis með söluhækkun á eignum eða verðmætisaukningu á eignum og verðmætislækkun á eignum. Þegar bíll lækkar í verði óeðlilega mikið er það ekki til tekna eða gjalda, það ætti í rauninni að vera til gjalda á móti hækkuninni eða niðurfellingunni á láninu. Þannig að tekjuskattur einstaklinga er að þessu leyti órökréttur og þess vegna er skattlagning á niðurfellingunni órökrétt. Menn þurfa að taka alla myndina.

Svo ef menn lenda í því að fara í nauðasamninga og eitthvað slíkt eru þeir yfirleitt gjaldþrota. Þá er ekkert af þeim að hafa. Ef þeir vilja endilega skattleggja það verði þeim að góðu, þá kemur það tvöfalt í bakið á manninum.