138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

vatnalög og réttindi landeigenda.

[12:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bera upp fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra, sem var iðnaðarráðherra árið 2006 þegar við sömdum og samþykktum reyndar vatnalögin. Eins og allir þekkja var þá komist að samkomulagi um að fresta gildistöku laganna og setja á fót endurskoðunarnefnd vegna þeirra. Deilt hefur verið um hvernig túlka beri eignarréttindi landeigenda að vatnsréttindum frá þessum tíma. Okkar sjónarmið þá var að það væri í engu verið að breyta því atriði í nýju lögunum enda sagði í frumvarpinu sjálfu að einungis væri um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu. Höfum líka í huga að allt frá því að hér giltu lög Grágásar og Jónsbókar hefur staðið í íslenskum lögum að hver landeigandi eigi vatn og veiði í sínu landi.

Nú er staðan sú að frestun á gildistöku laganna sem ákveðin var á árinu 2006 og hefur verið framlengd nokkrum sinnum rennur út um næstu mánaðamót. Þess vegna hefur iðnaðarnefnd velt því fyrir sér hvort enn ætti að fresta gildistöku laganna meðan verið væri að semja nýtt frumvarp eða hvort nú ætti að fella eldri lögin úr gildi. Í iðnaðarnefnd í morgun var tekist á um þetta atriði og ég get ekki betur séð af þeim skilaboðum sem komu frá nefndinni og formanni hennar en að nú standi til að hafa eignarréttinn af landeigendum í þessu landi, þrátt fyrir að ríkið sé nú þegar komið með 60–70% allra vatnsréttinda í landinu og hér hafi í margar aldir gilt sá réttur landeigenda sem ég hef gert grein fyrir. Það blasir við mér að ríkisstjórnin vilji leggja upp með að þjóðnýta vatnsréttindi landeigenda í landinu. Er það þetta sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) sér fyrir sér sem framtíðarskipulag þessara mála í landinu?