138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna sérstaklega þeirri vinnu sem unnin hefur verið í allsherjarnefnd eftir að málið var tekið af dagskrá og því frestað. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig það hefur verið gert. Það sannast þá að þegar menn hafa vilja — og þá þurfa allir að hafa hann, bæði stjórn og stjórnarandstaða — til að ná sáttum, og leggja sig fram um það, er hægt að ná sáttum. Ég vil undirstrika það í þessu máli að þetta er mjög lofsvert og ég er mjög þakklátur fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið í miðri umræðu af hv. allsherjarnefnd. Það er ekki mjög algengt að mál sem eru til umfjöllunar í þinginu fari til nefnda án þess að umræðan sé kláruð og þau séu þá í nefnd á milli umræðna. Það sýnir fyrst og fremst þann vilja sem allir höfðu til þess að ná sátt um málið.

Þær breytingartillögur sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur fram tel ég mjög skynsamlegar. Í fyrsta lagi það að skipuð sé sjö manna nefnd sem setji málið í einhvers konar búning og haldi utan um það og stýri því í þann farveg sem fram undan er — ég tel mjög mikilvægt að það gerist með þeim hætti. Ég fagna því líka sérstaklega að boða eigi til þjóðfundar. Ég tel mjög mikilvægt að sú ákvörðun skuli tekin að boða til þjóðfundar þegar nefndin hefur unnið þá grunnvinnu sem þarf. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að þegar farið er í að breyta grunnplaggi lýðveldisins, stjórnarskránni sjálfri, þarf að sjálfsögðu að vanda mjög vel til verka og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn setji sérfræðinga, sem hafa þekkingu á þessu sviði, til að búa um málið og setja það í þann búning að hægt sé að fara að fjalla um það með þessum hætti. Ég vil því þakka hv. allsherjarnefnd sérstaklega fyrir þá vinnu sem hún hefur unnið á síðustu dögum.

Málið hefur verið í gangi í marga mánuði en þegar menn einbeita sér að því að ná samstöðu um málið — ég segi það, virðulegi forseti, algjörlega hiklaust: Nú hafa margir hv. þingmenn komið hingað upp og sagt að til þess að fara í það að breyta stjórnarskránni þurfi að vera breið sátt og samstaða á milli þingflokka eða þeirra sem sitja á þingi, og ég tel að sú sátt sé að myndast hér. Þá ætti okkur ekki að vera neitt að vanbúnaði. Auðvitað er það þannig með öll mál að þegar menn fara í málamiðlanir og fara að gefa eftir af kröfum sínum og hugmyndum verðum við öll að taka tillit hvert til annars. Maður verður að horfa í eigin barm þegar maður ætlast til þess að aðrir geri það.

Ég vil aðeins víkja að þessum breytingum til viðbótar, virðulegi forseti, annars vegar er verið að stytta stjórnlagaþingið úr átta til ellefu mánuðum í tvo til hugsanlega fjóra mánuði, í því felst mikill sparnaður. Það kostar mikið að gera þetta. Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að þegar farið er í breytingar eins og að breyta stjórnarskránni er kannski ekki mjög æskilegt að menn horfi í peningana en því miður eru þeir tímar núna að ég tel mikilvægt að allir hv. þingmenn líti til hverrar einustu krónu. Ég á sæti í fjárlaganefnd og við erum oft að fjalla um hluti sem hugsanlega þarf mjög litla fjármuni í en kostnaður við stjórnlagaþing var upp á 600 milljónir. Hv. fjárlaganefnd gæti fyrir þá upphæð t.d. gert mjög mikið til að rétta af marga minnihlutahópa í þjóðfélaginu og gera líf þeirra bærilegra. Maður verður alltaf að horfa í kostnaðinn og þarna er ákveðinn afsláttur gefinn. Ég leyni því ekki að ég sé eftir því sem þetta kostar en virði það að menn skuli þá koma til móts við þau sjónarmið að vilja minnka kostnaðinn um allt að helming. Það eru jú eftir einhverjar 200–300 milljónir og ég leyni því ekki að ég sé eftir þeim.

Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að íbúaþingið sem á að halda, hugsanlega með fleiri hundruð manns eða jafnvel fleiri þúsund manns að þeirri fyrirmynd sem gafst mjög vel síðastliðið sumar, að hugsanlega væri hægt að kalla það stjórnlagaþingið eitt og sér og sleppa þessu seinna stigi. Það er mín skoðun að það væri skynsamlegra. Þetta kemur jú alltaf til þess stjórnvalds sem hér er. Við fjöllum um þetta í þinginu og mér finnst að þetta sé ákveðið þrep sem hægt hefði verið að sleppa. Það er mín skoðun.

Ég velti því líka fyrir mér, virðulegi forseti, að hægt hefði verið að halda þing hér og fjalla um stjórnarskrána af því að þessi tala 25–31, sem er fjöldi fulltrúa á stjórnlagaþinginu, er svipaður fjöldi og kom nýr til þings. Ef ég hefði fengið að ráða öllu — það er nú ekki þannig sem betur fer — hefði ég talið að breyta hefði átt þessum þjóðfundi í stjórnlagaþing.

Ég er líka hugsi yfir því hvernig á að kjósa til stjórnlagaþings og vil að það komi hér fram. Það er náttúrlega kosið, fólk býður sig fram og síðan er kosið. Menn þurfa að skila meðmælendalistum og allt þar fram eftir götunum, ég hef kannski ekki áhyggjur af því. En ég er dálítið hugsi yfir því hvað gæti gerst af hálfu stjórnmálaflokkanna. Þegar ákveðnir einstaklingar hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings, sem eru jú misþekktir í þjóðfélaginu, gæti það gerst, og ég vara við því og hef af því áhyggjur, að einhverjir stjórnmálaflokkar, jafnvel sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyri, fari að berjast fyrir því að ákveðnir einstaklingar, sem jafnvel tilheyra þeim sama stjórnmálaflokki, nái kjöri um fram aðra, þannig að í raun og veru sé verið að hafa pólitísk áhrif á stjórnlagaþingið. Ég hef áhyggjur af því. Ég vil að það komi hér skýrt fram.

Mér þótti hugmyndin um slembiúrtak vitlaus í upphafi, að menn ætluðu að velja til stjórnlagaþings með því að taka slembiúrtak, mér fannst það alveg fráleitt og finnst það reyndar enn. En ég velti því fyrir mér hvort hugsanlegt væri að gera það með þeim hætti að þeir sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram til stjórnlagaþings gætu hugsanlega þurft að skila inn meðmælendalistum eða eitthvað slíkt — maður gerir sér enga grein fyrir því hvort það gætu orðið 100 manns, 400, 1.000 eða 5.000. Ég geri mér enga grein fyrir því og ég held að enginn geti kannski giskað á þá tölu, það er bara hrein ágiskun. En ég vil hvetja hv. allsherjarnefnd til að skoða það að þegar það lægi fyrir að 500 manns, skulum við segja, vildu bjóða sig fram til stjórnlagaþings yrði hugsanlega tekið slembiúrtak úr þeim hópi, þ.e. úr hópi þeirra einstaklinga sem vilja bjóða sig fram. Þegar þeir hafa boðið sig fram, skilað inn meðmælendalistum og uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til frambjóðenda væri hægt að taka slembiúrtak úr þeim hópi og losna við að fara í kosningar þar sem fólk þyrfti að kynna sig með þeim kostnaði sem því fylgir. Ég held að það gæti líka hvatt fleiri en færri til að gefa kost á sér í þessa vinnu.

Ég held að þessi hugmynd sé allrar athygli verð. Ég hvet hv. allsherjarnefnd til að velta þessu fyrir sér til að losna við að pólitísk öfl fari hugsanlega að skipta sér af því hverjir eru kjörnir. Það gæti þá líka verið að þeir einstaklingar sem eru þekktari en aðrir, hvort heldur það eru stjórnmálamenn, fólk sem hefur starfað við stjórnmál, fjölmiðlamenn eða fólk sem yfir höfuð er þekkt í þjóðfélaginu, hafi hugsanlega meiri möguleika á því að ná kjöri til stjórnlagaþings en hinn almenni borgari sem kannski hefur ekkert minni skoðanir eða minni metnað til að taka þátt í þessari vinnu.

Virðulegi forseti. Ég vil þó segja hér að lokum, og ítreka það, að ég fagna sérstaklega þeirri góðu samstöðu sem náðist í allsherjarnefnd og þeirri vinnu sem var unnin þar. Markmiðið var að ná sáttum og meiri samstöðu um málið. Það hefur tekist og því fagna ég sérstaklega.