138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að samþykkja eitt hænuskref vegna þess að ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn um hvernig bankarnir og hlutabréfamarkaðurinn, og hlutafélög yfirleitt, eiga að starfa.

Hér er gullið tækifæri til að gera kröfu til eigenda, sem eru hlutafélög, um að þeir upplýsi um eigendur sína og aftur eigendur sína og allan eigendastrúktúrinn upp úr. Það er ekki notað. Hér er líka gullið tækifæri til að öll þau fyrirtæki sem fjármálafyrirtækin selja frá sér, sem er lunginn úr íslensku atvinnulífi, hafi sambærileg ákvæði í samþykktum sínum, þ.e. að þau upplýsi um eigendur sína. Að lokum er hér gullið tækifæri til að segja að fyrirtæki megi ekki kaupa í eigendum sínum eða lána til þeirra. Menn missa af þessu góða tækifæri, því miður, vegna þess að ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn. Hún sér bara út vikuna, hún sér ekki hvernig verður eftir 4, 5 eða 10 ár. Ég segi já. [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á að hann tók til máls um atkvæðagreiðsluna.)