138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að ég hefði tekið það skýrt fram í andsvari mínu að ég gaf ekki í skyn að hæstv. ráðherra væri að leggjast í einhvern sérstakan víking fyrir iðnaðarmálagjaldinu. Ég fór yfir það hér áðan að það var lagt á árið 1975 þegar hæstv. ráðherra var ekki nema sex mánaða gömul þannig að hún er hvorki upphafsmaður né ábyrgðarmaður iðnaðarmálagjaldsins, ekki frekar en ég. Hæstv. ráðherra sneri málinu þannig að ég hefði stutt ríkisstjórnir sem hefðu framkvæmt gjaldtökuna. Hún gaf þar af leiðandi í skyn að ég væri ábyrgur fyrir þessu iðnaðarmálagjaldi.

Ég hef flutt frumvörp um að afnema þetta iðnaðarmálagjald. Ég verð ekki sakaður um að vera einhver helsti talsmaður þessa gjalds þrátt fyrir að hafa stutt ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að frá árinu 1991. Það er nefnilega þannig í þeim flokki sem ég tilheyri að mönnum leyfist að hafa sínar eigin skoðanir, tala fyrir þeim og berjast. Öfugt við það sem við þekkjum á hina háa Alþingi í dag þar sem ríkisstjórnarflokkarnir smala mönnum sínum saman í réttir þar sem þeir fá yfir sig gusur ef þeir fylgja ekki þeim meginlínum sem forusta Samfylkingar og Vinstri grænna leggur.

Þetta er nú svona. Ég vildi árétta það að ég held því ekki fram að hæstv. ráðherra sé upphafsmaður eða ábyrgðarmaður þessa iðnaðarmálagjalds. Ég kæri mig hins (Forseti hringir.) vegar ekki um að ég sé gerður ábyrgur fyrir því, maður sem hefur barist gegn (Forseti hringir.) því með hv. þm. Pétri H. Blöndal.