138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sá forseti sem nú situr í forsetastól og hefur að mínu mati, í tengslum við önnur mál, túlkað fundarsköpin með þeim hætti sem ég tel að ekki eigi að gera gat þess sérstaklega áðan að ég hefði ekki verið í húsi þegar hæstv. iðnaðarráðherra kvaddi sér hljóðs. Það er rétt að ég stökk í fimm mínútur, held ég, út á skrifstofu mína til að ná í mikilvæg gögn sem varða málið en hef annars verið hér við alla umræðuna. Ég vakti athygli á því áðan að hæstv. ráðherra væri ekki við umræðuna. Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi kallað eftir því að hún væri hér. Hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir því að hún væri vant við látin af eðlilegum ástæðum og ég tók þær skýringar gildar. Þannig að það er rangt að ég hafi kallað eftir henni.

Hitt er annað mál að ég mun ekki geta rætt frekar við hæstv. ráðherra þar sem ræðum mínum er (Forseti hringir.) lokið. Þar fyrir utan er sá munur á mér og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að ég er ekki að bera þetta mál fram eða mæla fyrir því heldur bara að taka þátt í umræðunum.