138. löggjafarþing — 139. fundur,  14. júní 2010.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[12:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til að komið er að allra síðustu dögum þingsins og enn eru allnokkur stór mál óafgreidd. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni að það eru engin sérstök efni til þess samkvæmt þeirri dagskrá sem liggur fyrir þinginu og þeim málum sem enn eru óafgreidd til að láta málin enda í miklum ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Því vil ég sérstaklega nefna þá tiltölulega nýlegu breytingu á þingskapalögum sem gefur þinginu tækifæri til að vísa málum sem ekki eru fullrædd eða ekki er sátt um fram í septemberþingið. Að öðru leyti hagar þannig til með sum mál sem menn hafa ekki komist til botns í að þau eru efnislega þannig vaxin að það er engin ástæða til að fara að efna til ágreinings. Vil ég þá fyrst nefna vatnalögin sem sjálfsagt og eðlilegt er að fresta gildistökunni á alveg eins og vatnalaganefnd hefur lagt til og við höfum áður gert. Við skulum ekki nota þessa dýrmætu daga sem fram undan eru, 1–2 dagar eftir, til (Forseti hringir.) að efna til ágreinings um þau mál.

Ég vil bara nota þetta tækifæri til að segja að það eru full efni til að ljúka þingstörfunum í góðri sátt.