138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist að við hæstv. ráðherra séum ekkert mjög ósammála um viðhald veganna. Ég held að við gerum okkur báðir grein fyrir því að það getur ekki gengið til lengdar að fresta viðhaldi á vegamálunum vegna þess einfaldlega að vegirnir munu þá láta undan síga í bókstaflegum skilningi þess orðs og verða ekki færir. Við sjáum dæmin, þegar menn hafa trassað það ár eftir ár að setja burðarefni ofan í vegina gildir einu þótt menn reyni að skrölta yfir vegina á heflunum. Ég hef t.d. áhyggjur af því, af því að ég nefndi Vestfjarðaveg og vegina í Vestur-Barðastrandarsýslu, að þar er ekki búið að vinna neitt malarefni og jafnvel þó að menn vildu fara í einhverjar viðhaldsframkvæmdir á þessum vegarkafla er efnið sem þyrfti að nota í vegina einfaldlega ekki til. Þess vegna ættum við að reyna að nýta núna tímann til að fara í vinnslu á a.m.k. malarefninu þannig að menn geti rokið í viðhaldið ef á þarf að halda, ef menn hafa forsendur til þess að fara í það.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir um að vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum séu brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi. Það er gott að við erum algjörlega sammála um það. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið áhugasamur í þessum efnum og það er ekki við hann að sakast að þeir hlutir hafa tafist sem eiga rætur sínar að rekja til þeirra deilna sem hafa staðið um vegstæðin. Hæstv. ráðherra hefur haft ákveðna skoðun í þessum efnum og ekkert legið á henni.

Ég fagna því líka ef það er mat hæstv. ráðherra að við gætum komist í vegaframkvæmdir á kaflanum frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði strax um þetta leyti á næsta ári. Maður er hins vegar orðinn svo brenndur af eilífum útistöðum sem menn eru í alltaf þegar kemur að þessum vegarköflum að ég er ekki svona bjartsýnn fyrir hönd þessarar framkvæmdar. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra sé raunsærri en ég, en allir sjá að þetta er óskapleg staða sem við erum að komast í núna. Einu framkvæmdinni sem er á þessari leið lýkur væntanlega í haust. Það er dapurlegt að í þessu máli verði ekki (Forseti hringir.) haldið áfram í þessari vegagerð fyrr en einhver tímann á næsta ári.