138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að þingmönnum hlaupi kapp í kinn við þessar fréttir og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verður bara að sætta sig við það. Hann ber ábyrgð gagnvart þinginu og utanríkismálum. Ég get ekki betur séð en að hæstv. utanríkisráðherra sé eins og tvíhöfða lamb með aðra löppina í Kína og hina löppina í ESB.

Ég stend ekki frammi fyrir því að hér verði vílað og dílað með íslensku þjóðina í samningum við Evrópusambandið annars vegar og gagnvart Icesave-skuldinni hins vegar. Það kemur ekki til greina, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki átta sig á því að ekki er um neitt að semja. Íslenska þjóðin vill ekki inn í Evrópusambandið. Verður þetta skuldaaflausn ef við förum inn í Evrópusambandið? Eru þetta múturnar sem er verið að bjóða? Koma þeir heim með núllstilltan (Forseti hringir.) Icesave-reikning ef við fáum þessa afgreiðslu í Evrópusambandinu? (Forseti hringir.) Það er kominn tími til að upplýsa þetta, hv. formaður utanríkismálanefndar.