138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sömu skoðunar og þá og þess vegna er m.a. kveðið á um það í greinargerð frumvarpsins að æskilegt væri að fá tengiliði frá öllum þingflokkum til að fylgjast með og vera þátttakendur í þessari vinnu í sumar. Það er rétt að áformað er að afgreiða þetta mál í haust, við getum sagt í september eða október, ekki síst vegna þess að við bindum vonir við að sæmileg samstaða geti orðið um tvær af þessum breytingum, þ.e. að velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið taki til starfa um næstu áramót. Það er langhandhægast að gera slíkar breytingar um áramót og það er eftir miklu að slægjast í hagræðingu, við vitum það, við sjáum það. Hvert ár sem breytingarnar tefjast um er tapað ár í þeim skilningi að þá er ekki lagður grunnur að því að sú hagræðing skili sér á þeim árum sem á eftir koma.

Þegar við horfum á stöðu ríkisfjármála nú, horfum á viðfangsefnin, ekki bara á næsta ári, sem verður erfitt, heldur það að meira þarf til 2012 og 2013, þá megum við ekki láta frá okkur möguleika sem geta hjálpað okkur á þeirri vegferð að ná endum saman í ríkisbúskapnum og snúa halla í afgang. Ef hagræðing og (Forseti hringir.) endurskipulagning, sameining stofnana og sameining innan Stjórnarráðsins geta orðið okkur veganesti í þann leiðangur (Forseti hringir.) megum við ekki vera svo fælin í málinu að við þorum ekki að leggja af stað.