138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[12:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Forsaga þessa máls er eins og hinna tveggja sem við höfum rætt í dag, að fyrst koma inn í þingið nokkur mál frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem félags- og tryggingamálanefnd tekur síðan og gerir viðamiklar breytingar á og flytur sjálf hér þrjú frumvörp og þetta er eitt af þeim. Megininntak þessa frumvarps er að koma til móts við þær fjölmörgu fjölskyldur og einstaklinga sem sitja uppi með tvær eignir, hafa ákveðið að fjárfesta í stærra eða nýrra húsnæði fyrir fjölskyldu sína, þurft að flytja eða eitthvað slíkt, en hafa ekki náð að selja fyrri eignina. Hér er verið að reyna að smíða úrræði utan um þetta álitaefni og verkefni, en talið er að um 1.000 til 1.500 aðilar gætu nýtt sér þetta úrræði.

Af öllum þeim pakka sem við erum að fara með í gegn hér í dag tel ég að þetta frumvarp hafi þá skírskotun að geta fækkað þeim aðilum sem þurfa hugsanlega að nýta önnur greiðsluvandaúrræði sem við höfum fjallað um fyrr í dag og því fagna ég þessu frumvarpi. Hins vegar hefur það þurft að taka miklum breytingum og hefur verið unnið talsvert í því. Ég tel að þær miklu breytingar sem hafa orðið á þessu máli í störfum nefndarinnar séu mjög til bóta og það hafi verið algjörlega nauðsynlegt að fá þennan aukadag sem við erum að nota í dag. Með því gátum við fengið fram athugasemdir frá réttarfarsnefnd vegna þess að hér erum við að sjálfsögðu að fást við grundvallarréttindi í samfélagi okkar, veðréttindi. Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að kröfuhafar séu kannski ekki í fjölmiðlum og í umræðunni vinsælustu aðilarnir sem rætt er um eru þetta engu að síður einstaklingar sem hafa samið sín á milli í sumum tilfellum, samið við lánastofnanir um ákveðin atriði og báðir aðilar vilja að sjálfsögðu uppfylla þann samning. Við þurfum bara að tala um hlutina eins og þeir eru. Síðan verður forsendubrestur í samfélaginu sem veldur því að erfiðara er að koma eignum í verð, erfiðara að losa sig við fasteignir og það veldur því að menn sitja uppi með eignir.

Þetta er viðfangsefnið. Ég tel að við höfum náð að einhverju leyti utan um það og vonast til að þetta virki allt saman vegna þess að það hlýtur að vera tilgangurinn að hægt sé að nota úrræðin sem við erum að smíða.

Nefndin fjallaði náttúrlega talsvert og mest í rauninni um þau atriði sem lúta að tilfærslu veðréttinda vegna þess að það geta komið upp tilvik þar sem einstaklingur situr uppi með tvær eignir og önnur er yfirveðsett en hin ekki. Lántakinn ákveður svo að biðja um að annarri verði skilað og þá er spurning hvort að færa eigi til veðin. Þetta er að sjálfsögðu stór spurning og varðar grundvallarréttindi sem fjallað er um í stjórnarskránni, eignarréttinn. Þetta eru ekki einfaldar spurningar, en ég tel að í vinnu nefndarinnar hafi frumvarpið tekið mjög miklum breytingum, efnislega sé það orðið gott. Ég tel að þetta úrræði geti nýst og vonast til að þetta verði til bóta fyrir þennan stóra hóp, sem kom mér talsvert á óvart hversu stór er.

Við ræddum líka talsvert um tímasetninguna á þessu, hvort og með hvaða hætti ætti að takmarka tímann sem þær eignir sem frumvarpið fjallar um næðu til. Eftir að hafa fengið ábendingar og farið aðeins yfir stöðuna hjá sveitarfélögum á landsbyggðinni ákváðum við að færa tímamarkið aftur til 1. janúar 2006. Ég tel að það sé ágætt, þá geta fleiri nýtt sér þessi úrræði. Þetta er þá fyrra tímamarkið, eignirnar þurfa að hafa verið keyptar á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2010. Og það er talið af hálfu nefndarinnar að þetta sé svigrúm sem eigi að nýtast flestum sem hafa lent í þessum erfiðu aðstæðum. Engu að síður lögðum við líka til undanþáguheimild um að hægt sé að víkja frá þessu tímamarki við mjög sérstakar aðstæður en tókum skýrt fram, og gerum það í nefndarálitinu að mig minnir, að sú undanþáguheimild verði skýrð þröngt vegna þess að það verður náttúrlega að hafa einhverja stjórn á því hvað gert er þarna. Ég tel að þessi breyting sé mikilvæg, sérstaklega fyrir landsbyggðina þar sem menn vita að fasteignamarkaður hefur þróast með öðrum hætti en í þéttbýlinu og á höfuðborgarsvæðinu og var í rauninni ekki í uppsveiflu á árinu 2007 alls staðar úti á landi þótt mikið hafi verið í gangi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég fagna því, frú forseti, að við náðum lendingu í málinu. Ég verð að játa að á tímabili var ég hálfefins um það vegna þess að mér fannst standa svo mikið út af, en með vísan til þess góða samráðs og góða samstarfs sem nefndin einsetti sér að vinna í náðum við þessu. Ég vil svo óska okkur öllum og sérstaklega sjálfri mér til hamingju með það, efasemdarmanneskjunni um þetta mál, að geta staðið hér og stutt það.