138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:13]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég gladdist yfir því að sjá hæstv. viðskiptaráðherra rísa upp úr því doðakennda ástandi sem hefur einkennt það ráðuneyti í langan tíma og segja okkur afdráttarlaust hverra hagsmuni hann varðveitir, þ.e. hagsmuni fjármálastofnana, banka og lánveitenda. Jafngleðilegt og það er að sjá menn rumska af værum blundi finnst mér óhugnanlegt að sjá þess enn einu sinni merki að sú skjaldborg sem þessi ríkisstjórn var kjörin til að reisa á að standa í kringum banka, lánastofnanir, fjármálafyrirtæki og því um líkt en ekki í kringum almenning í landinu.

Ég fyrir mína parta fagna því heils hugar að Hæstiréttur skyldi komast að réttlátri og skynsamlegri niðurstöðu og ganga gegn því valdi sem hér hefur allt of lengi verið ofar lögum sem gilda í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Fyrir þúsund árum var borgarastyrjöld forðað í landinu með kristnitöku þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kvað upp úr með það að ef þjóðin ætlaði sér að búa í landinu skyldi hún búa við einn sið, ein lög, því að annars væri sundur skilinn friðurinn, þá væri friðurinn úti. Við höfum árum saman búið við það að hér í þessu landi hafa gilt tvenns konar lög, landslög og síðan lög sem eru miklu ofar landslögum, þ.e. lög markaðsins. Menn hafa trúað í blindni á óskeikulleika og eilíft réttlæti þessa skrímslis, markaðsins. Menn hafa tilbeðið, menn hafa kastað krossinum fyrir róða og trúað á reiknistokkinn í staðinn. Því er fagnaðarefni að Hæstiréttur skuli ræskja sig svo afdráttarlaust sem nú er orðið og benda okkur á að það eru ein lög í landinu, þau gilda fyrir okkur öll og eftir þeim skulum við fara.

Eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra benti á leysir þessi hæstaréttardómur vissulega ekki öll vandamál. Eftir standa ýmis álitamál en við höfum lög og dómstóla sem munu skera úr þessum álita- og ágreiningsmálum. Það stendur ekki upp á Alþingi að rjúka núna til með einhverja undarlega lagasetningu í flýti til að bjarga bönkum og fjármálastofnunum úr þeirri snöru sem þeir lögðu sjálfir um hálsinn á sér. Það stendur upp á Alþingi Íslendinga að veita þjóðinni forustu út úr þeirri fjármálakreppu sem þjóðin er stödd í nú um stundir. Það verður best gert með því að slá skjaldborg um heimilin í landinu, um fjölskyldurnar, um fólkið í landinu. Fjármálastofnanir munu lifa af þessa kreppu eins og þau hafa lifað af þúsund aðrar kreppur í sögu mannkynsins. Við þurfum á nýjan leik að gera Ísland að samvinnufyrirtæki þar sem ríkir samábyrgð, samhugur og samstaða og snúa af þeirri braut að reka landið sem tilraunastofu fyrir frjálshyggju og gróðrarstíu fyrir dólgakapítalisma með öllum sínum skelfilegu (Forseti hringir.) afleiðingum. Það er kominn tími til að skipta um stefnu en Hæstiréttur hefur talað og orð hans standa.