138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

fundarstjórn.

[14:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta og hvetja hæstv. forseta til að sjá til þess að það mál sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði grein fyrir áðan verði sett á dagskrá þannig að við getum gert það að lögum síðar í dag.

Í máli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kom fram að nauðsynlegt væri að setja sérstakt lagaákvæði um það að hægt væri að stuðla að þessari flýtimeðferð. Það er ágreiningur um hvort setning þessara laga mundi hafa áhrif á það sem þegar er komið af stað. Ef það er hins vegar mat hæstv. ráðherra að setja þurfi slík lög er þá okkur nokkuð að vanbúnaði að gera það núna? Er ekki öruggara að við gerum það einmitt núna á meðan þingið situr? Er eftir einhverju sérstöku að bíða? Það blasir auðvitað við hvers vegna hæstv. ríkisstjórn bregst við með þessum hætti, dregur lappirnar, vill ekki að þetta mál fái flýtimeðferð, vill ekki að þessi lagasetning verði samþykkt. (Forseti hringir.) Hæstv. ríkisstjórn gerir það af meinbægni vegna þess að hér er ekki um að ræða stjórnarfrumvarp heldur þingmannafrumvarp.