138. löggjafarþing — 148. fundur,  24. júní 2010.

þingfrestun.

[17:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum þingsins kærar þakkir fyrir samstarfið á þessu annasama og að ýmsu leyti óvenjulega þingi. Ekki síst vil ég þakka forseta fyrir samstarfið við okkur þingflokksformenn, það hefur verið ánægjulegt, mjög ánægjulegt, en á köflum stormasamt á okkar góðu fundum. En okkur hefur lánast það þó að við tökumst á, að ná á enda niðurstöðu sem allir geta unað við.

Ég get svo sannarlega tekið undir með hæstv. forseta, það er mjög brýnt verkefni okkar alþingismanna að þróa og bæta vinnubrögðin hér á hinu háa Alþingi. Ég heiti á alla þingmenn að taka höndum saman um það verkefni og ég veit og er sannfærð um að það mun skila sér í betri lagasetningu og auknu trausti á þessari virðulegu stofnun sem við sitjum hér í.

Ég færi forseta og fjölskyldu hennar góðar kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna, hinu góða starfsfólki Alþingis vil ég líka færa þakkir okkar þingmanna fyrir góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð. Ég bið þingmenn að taka undir góðar kveðjur til hæstv. forseta Alþingis og fjölskyldu hennar og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]