138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

gengistryggð lán.

[10:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það kemur auðvitað verulega á óvart að hæstv. fjármálaráðherra, sem á sama tíma stóð að því að stofna hér nýja banka, hafi ekki verið upplýstur um það af ráðherra í sinni eigin ríkisstjórn að fyrir lægju álit frá lögfræðiskrifstofu úti í bæ og frá Seðlabanka Íslands og jafnvel frá viðskiptaráðuneytinu um ólögmæti þessara lána. Það segir sig auðvitað sjálft í ljósi þessara yfirlýsinga frá hæstv. ráðherra að það virðist hafa verið og virðist vera algjört sambandsleysi innan ríkisstjórnarinnar, milli ráðherra, um mikilvægar upplýsingar sem eiga brýnt erindi við almenning og fyrirtæki í landinu.

Ég leyfi mér að halda því fram að sú ákvörðun að leyna þing og þjóð þessum upplýsingum hafi falið í sér afglöp, vanrækslu og hirðuleysi stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar, sem á að gæta almannahagsmuna, (Forseti hringir.) en að fyrst og fremst hafi sú ákvörðun verið svik við fólkið í landinu sem tók þessi lán, svik sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji (Forseti hringir.) að þessi framkoma og embættisfærsla kalli ekki á rannsókn á þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til þess að virða tímamörk.)