138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir vinsamleg orð í garð utanríkismálanefndar. Nú háttar þannig til að auk þess að vera formaður utanríkismálanefndar er ég einnig varaformaður hv. allsherjarnefndar. Mér er kunnugt um meðferð frumvarpsins í allsherjarnefnd. Við höfum rætt það þar en ekki afgreitt það út úr nefndinni. Það helgast ekki af neinni andstöðu við málið, heldur hefur allsherjarnefnd verið störfum hlaðin á nefndadögum í ágúst með mjög stór frumvörp til umfjöllunar, m.a. er varða útlendinga, þrjá stóra lagabálka um málefni réttarstöðu flóttafólks, frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu og frumvarp sem ég mæli fyrir næst, um hópmálsókn. Því miður hefur ekki gefist ráðrúm til að afgreiða málið út úr allsherjarnefnd en ég á ekki von á frekari töf. Það kann að vera að endurflytja þurfi málið í byrjun október en það ætti að vera unnt að afgreiða það fljótt og snöfurmannlega út úr allsherjarnefnd strax í byrjun næsta þings.