138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka hlý orð í minn garð og þá umhyggju sem hv. þingmaður ber fyrir mínum pólitíska frama vil ég mótmæla því að hér sé verið að etja mér á eitthvert sérstakt forað, enda er ég ekki ósammála frumvarpinu. Ég er sammála því sem þar er á ferðinni en ég vil ganga lengra. Ég þykist vita að með samkomulagi fjögurra stjórnmálaflokka sé nokkuð víst að þessi lágmarkssamnefnari sem ég kalla svo muni komast með nokkuð öruggum hætti í gegnum þingið. Um þær tillögur sem ég og hv. þm. Þór Saari eigum eftir að flytja í framtíðinni um þessi efni veit ég ekki, enda á það eftir að koma í ljós hvernig þeim reiðir af. Hér höfum við a.m.k. náð einhvers konar gólfi. Þetta er skref í rétta átt frá því sem áður var.

Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir að minnast á það hvort ekki sé ástæða til að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég gleymdi að geta þess í framsögu minni með nefndarálitinu að í morgun barst mér ábending frá ríkisendurskoðanda varðandi 3. gr. frumvarpsins sem ég tel fulla ástæðu til að taka til mjög alvarlegrar skoðunar í allsherjarnefnd. Hún lýtur að því að samkvæmt þeirri grein er stjórnmálasamtökum ætlað að skila inn umsókn til ríkisendurskoðanda. Þegar sú grein er skoðuð gaumgæfilega sjáum við að það mun ekki ganga upp með þeim hætti að sami aðili sjái um að deila út fjárstyrkjum og svo endurskoða líka fjárframlögin. Við munum taka málið aftur inn til nefndarinnar og ræða það enn frekar þar.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt. Hér er stigið skref í rétta átt með lágmarkssamnefnara stjórnmálaflokkanna en svo getum við farið lengra með þennan málaflokk ef okkur sýnist svo.