138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hyggst blanda mér aðeins í umræðuna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Skemmst er frá því að segja að ég á aðild að nefndaráliti frá allsherjarnefnd sem liggur fyrir í málinu á þskj. 1447. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum frumvarpið og þær breytingar sem allsherjarnefnd leggur til. Mér finnst samt mikilvægt, ekki síst í tilefni þeirra orða sem hér hafa fallið af hálfu hv. þm. Þórs Saaris, að árétta það sem kemur fram í nefndarálitinu. Þar er sagt skýrum orðum að nefndin telji að þetta sé eitt skref af mörgum nauðsynlegum sem þarf að taka varðandi starfsemi stjórnmálasamtaka.

Með leyfi forseta er það orðað svo:

„Nefndin telur að með þessu frumvarpi sé stigið skref í rétta átt hvað það varðar að skýra og skilgreina þau mörk sem eðlileg megi telja þegar kemur að fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Fjármálareglur stjórnmálaflokka og frambjóðenda eru ekki endanlega afgreiddar með þessu frumvarpi og telur nefndin rétt að ítreka það álit að hér er stigið eitt skref af mörgum nauðsynlegum í þá átt að endurreisa traust kjósenda á stjórnvöldum.“

Álit þingnefndar, þar sem hún fjallar um viðkomandi þingmál, hefur auðvitað sitt að segja og er skilaboð Alþingis út í samfélagið og ekki síst til framkvæmdarvaldsins. Með afgreiðslu frumvarpsins og breytingartillagnanna og með nefndarálitinu sem hér liggur fyrir, gefur Alþingi mjög sterklega til kynna að halda þurfi áfram að vinna í þessum málum.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er við því að búast að þingmannanefndin sem er að fjalla um það mál muni í niðurstöðum sínum koma með ábendingar um endurbætur á löggjöf sem þarf að ráðast í í framhaldi af vinnu og ábendingum rannsóknarnefndarinnar. Þær geta m.a. varðað starfsemi stjórnmálasamtakanna. Við erum því að sjálfsögðu ekki að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll og láta þar við sitja. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé áréttað.

Mig langar líka til að segja að það er að mínu viti mjög mikilvægt að gegnsæi ríki í starfsemi og fjármögnun stjórnmálasamtaka í landinu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð innleiddi það strax í upphafi að reyna að hafa eins mikið gegnsæi og kostur væri í fjármögnun starfsemi sinnar og ákvað strax að ársreikningar stjórnmálahreyfingarinnar skyldu endurskoðaðir, fyrst af kjörnum endurskoðendum og síðan af löggiltum endurskoðanda, eins og nú er orðið. Hreyfingin setti sér ákveðin viðmið varðandi stuðning við starfsemi sína um framlög sem skyldu birt opinberlega ef þau færu yfir ákveðnar fjárhæðir. Við settum okkur reglur um að fjárhagsleg hagsmunatengsl kjörinna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum skyldu gerð aðgengileg og skráð og birt á vef flokksins. Það hefur verið gert um langt skeið án þess að um það væru sérstök lög. Það sýnir einfaldlega að hægt er að gera þetta aðgengilegt og gegnsætt þó að það sé ekki endilega fyrirskipað með lögum. En auðvitað er betra að hafa um það skýran lagaramma svo að allir séu knúnir til að hafa fjármálin eins gegnsæ og uppi á borðinu og við viljum að þau séu í lýðræðissamfélagi okkar. Ég tel því að af okkar hálfu verði ekki annað sagt en að við höfum reynt að hafa þetta eins skilmerkilegt og aðgengilegt og kostur er.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að þetta væri ekki bara spurning um hvort menn fengju fjárframlög, menn væru misjafnlega settir og byggju við mismunandi aðstæður. Meðal annars hefðu kjörnir fulltrúar á Alþingi og ráðherrar þennan ræðustól hér til að auglýsa sig, ef svo má segja, þeir væru þekktir í samfélaginu og hefðu því forskot á aðra. En það má auðvitað ekki gleyma því að það er ekki nóg að vera þekktur, menn geta verið þekktir að endemum líka. Það getur þvælst fyrir mönnum þegar kemur að prófkjörum. Ræðustóll á Alþingi til að auglýsa sjálfan sig er ekki ávísun og trygging fyrir því að menn nái góðum árangri í prófkjörum, eins og dæmin sanna.

Auðvitað er alltaf einhver aðstöðumunur. Sumt fólk er þekkt í samfélaginu af öðru en stjórnmálum og þá má fullyrða með sömu rökum að það hafi einhverja forgjöf í prófkjörum. Einnig má velta því upp hvort prófkjör séu endilega rétta leiðin til að velja fólk á framboðslista. Þetta er allt umdeilt. Umfram allt finnst mér mikilvægt að það ríki gegnsæi, menn viti hverjir styðja hvern með hvaða hætti. Ég vil líka bæta því við að ég tel að það eigi ekki bara við um stjórnmálahreyfingar, vegna þess að miklu fleiri aðilar hafa áhrif í samfélaginu. Alls konar hagsmunasamtök í samfélaginu hafa áhrif á stjórnmálaþróunina, á stjórnmálastarfsemina og á þjóðmálin. Á ekki að gera sambærilegar kröfur til þeirra? Á ekki að gera kröfur um að það sé ljóst hverjir styrkja slíka starfsemi?

Við getum tekið sem dæmi að hér yrði ráðist í þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið eða stefnuna í sjávarútvegsmálum. Er ekki viðbúið að einhver fyrirtæki úti í bæ teldu sig hafa ríka hagsmuni til að reyna að hafa áhrif á úrslit slíkrar atkvæðagreiðslu með því t.d. að leggja fé í starfsemi einhverra samtaka sem hafa ákveðna stefnu í slíkum kosningum? Á ekki að gera kröfu um að bókhald slíkra samtaka og fyrirtækja sem veita fjármuni í almannaumræðuna séu uppi á borðinu líka?

Ég leyfi mér að nefna umræðurnar um Evrópusambandsaðild eða ekki Evrópusambandsaðild. Þar kunna auðvitað hagsmunasamtök að takast á þegar kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkt mál. Við fjölluðum um þetta í utanríkismálanefnd í fyrra. Hygg ég að það standi einhvers staðar í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar að mikilvægt sé, ef framlög frá hinu opinbera fara til hreyfinga sem vilja berjast fyrir málstað sínum, að bókhaldið sé opið. Eigum við ekki að gera kröfu um það? Er ekki mikilvægt að við vitum það?

Mér finnst því að málið sé kannski stærra en svo að það lúti einungis að stjórnmálasamtökum og frambjóðendum í prófkjörum eða í kosningum. Frumvarpið sem hér er á ferðinni og fjallar um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka er að mínu viti skref fram á við. Ég tek undir með hv. þm. Þráni Bertelssyni, hann kallar þetta hænuskref fram á við og þau kunna að vera misstór, allt eftir gripnum sem í hlut á. (Gripið fram í.) Já, hæna getur verið eins og mannskepnan mismunandi stórstíg, reikna ég með.

Í öllu falli erum við að þróa málin í rétta átt og réttan farveg. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Þór Saari að þetta er auðvitað ekki endanlegt skref og það þarf að vinna áfram í þessum málum og setja enn skýrari ramma. Vonandi verða ábendingar um það í vinnu þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrsluna, um að gera þurfi enn frekari bragarbót í þessu efni. Við eigum þá að sjálfsögðu að vinna að því.

Þess vegna er það mér dálítið umhugsunarefni af hverju þingmenn Hreyfingarinnar kjósa að leggjast gegn samþykkt þessa frumvarps jafnvel þó að þeir séu ekki ánægðir og telji að hér sé ekki gengið nógu langt. Ég get alveg skilið þær röksemdir og tekið undir þær. En þetta er að minnsta kosti ekki skref aftur á bak eins og ég hef skilið það í málflutningi þeirra heldur þvert á móti fram á við og til bóta. Ég ítreka það sem ég sagði að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum alla tíð reynt að hafa þessi mál eins aðgengileg og opin og hægt er, burt séð frá lögum eða ekki lögum um þá starfsemi. Við erum stolt af því. Við tökum heils hugar undir og viljum vinna að frekari betrumbótum á rammanum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Ég vil fyrir mitt leyti gjarnan bæta því við að ég tel að líka þurfi að huga að fjárframlögum til annarrar pólitískrar starfsemi, því að barátta alls konar samtaka og jafnvel fyrirtækja fyrir málstað sínum getur verið þess eðlis að liggja eigi fyrir hvernig hún er fjármögnuð, ekkert síður en starfsemi stjórnmálasamtakanna.

Að því sögðu, frú forseti, legg ég eindregið til að þessi lög og breytingartillögur allsherjarnefndar verði samþykkt og hvet til þess að í framhaldinu verði haldið áfram vinnu á þessu sviði.