138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komin til atkvæðagreiðslu tillaga til þingsályktunar sem ég er 1. flutningsmaður að og flyt með öllum þingmönnum Norðausturkjördæmis. Mig langar við þetta tækifæri til að þakka hv. formanni utanríkismálanefndar fyrir að klára þetta mál fljótt og vel. Það heyrir því miður til undantekninga að mál stjórnarandstöðuþingmanna séu samþykkt, en það er vel að svo hafi farið nú.

Ég tek fram að hér er um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir Ísland, þ.e. að Ísland skapi sér sess og skipi sér í forustu þegar málefni heimskautasvæðanna eru til umræðu. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli fyrir Akureyri og allt Norðurland að ráðstefnan skuli fara fram þar. Um leið erum við að skipa Akureyri sem eins konar Davos þessara mála. Eins og Davos er miðstöð umræðu um umhverfismál verður Akureyri miðstöð (Forseti hringir.) um heimskautamál. Síðast en ekki síst mun þetta styrkja Háskólann á Akureyri en hann hefur verið í fararbroddi í þessum málum (Forseti hringir.) svo ekki sé minnst á hina einstöku kennslu skólans í heimskautarétti. Ég segi já.