138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður höfum að sjálfsögðu tekið þessa umræðu að einhverju leyti innan allsherjarnefndar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé áferðarfallegra, það fari betur á því og sé lýðræðislegra og opnara að fjalla um málið hér á vettvangi þingsins þótt vissulega sé til staðar heimild til handa ríkisstjórninni að breyta þessu einhliða. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort hún sé ánægð með þá framsetningu mála, eða hvort hún kjósi frekar í framtíðinni að mál verði leyst með þeim hætti sem hún lýsti sem skoðun sinni innan allsherjarnefndar.

Ég vil líka ítreka það að ég sakna þess að heyra engar efnislegar tillögur frá minni hluta allsherjarnefndar í þessum efnum.