138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ómögulegt að segja en það vita allir út á hvað þetta mál gengur. Nú vill hæstv. forsætisráðherra og samstarfsflokkurinn losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórninni og mun sá flokkur gera allt sem hann getur til að svo megi verða. Flóknara er málið ekki. Allt annað er algert aukaatriði hjá þessari ríkisstjórn. Málið snýst um það að þarna eru miklar deilur og það fer illa í samstarfsflokkinn hvernig hæstv. ráðherra hefur hagað sér. Síðan verður vandræðagangur ef þeim tekst að losa hann út, hvort hann verði þá til meiri vandræða fyrir utan en innan, svipað og hæstv. dóms- og mannréttinda-, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, Ögmundur Jónasson, en það var matið að betra væri að hafa hann í bátnum, hann gerði minni óskunda þar en fyrir utan. Þetta hefur ekkert með faglega hluti að gera, ekkert með stjórnsýslu að gera eða nokkurn skapaðan hlut. Það sem við þyrftum að gera í þinginu, ef við værum að vinna þetta með skynsemi, er að styrkja það sem þarf að styrkja hjá framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið er mjög veikt á ýmsum sviðum gagnvart undirstofnunum. Það er t.d. einn þátturinn. Sum ráðuneytin eru mikil rekstrarráðuneyti og þau verða að hafa einhverja þá stöðu að geta fylgt eftir fjárlögum og fylgt eftir ákvörðunum sem pólitísk samstaða hefur náðst um.

Sömuleiðis hefur það verið mikill vandi að stefnumótun vantar hjá hinu opinbera. Við sjáum það aldrei betur en núna að hæstv. ríkisstjórn ýtir því öllu á undirstofnanirnar að koma fjárlögum í framkvæmd. Ríkisendurskoðandi hefur m.a. gagnrýnt hæstv. ríkisstjórn sérstaklega fyrir þetta því að stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á því hvernig þetta er gert. Það er svona sem við eigum að nálgast þetta, virðulegi forseti. Þetta er stórt spennandi verkefni og mjög æskilegt að við mundum vinna saman að því en því miður horfum við bara á pólitísk hrossakaup.