138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að eiga orðastað við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson í tengslum við ráðherrabreytingar í ríkisstjórninni. Nú komu þær um margt á óvart og vöktu furðu margra. Það var þó mjög upplýsandi þegar hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir útskýrði það fyrir fréttamönnum á tröppum Bessastaða hvers vegna farið hefði verið í þessar breytingar. Hún sagði að með ráðherraskiptunum væri verið að tryggja meiri hluta fyrir fjárlögum.

Ég held að flestir hafi staðið í þeirri meiningu að hér væri meirihlutastjórn í landinu. (Utanrrh.: Hvar hefur þú verið?) [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég hvet fréttamenn til að vera vakandi núna því að hér er hvorki meira né minna en hæstv. utanríkisráðherra og yfirforsætisráðherra að upplýsa um að þetta sé fullkominn misskilningur. Það er auðvitað mikil frétt. Það er þó þannig eins og hæstv. utanríkisráðherra þekkir að sú ríkisstjórn sem er ekki með þingmeirihluta getur bara gert eitt, sagt af sér. Málið er ekki flóknara en það. En — (Utanrrh.: Sigurður Kári vildi að við tækjum Framsóknarflokkinn með í gær.) [Hlátur í þingsal.] Ég hlakka til að fá hæstv. utanríkisráðherra upp í pontu til að upplýsa okkur um raunverulega stöðu á stjórnarheimilinu og treysti honum til að gera það mjög skilmerkilega.

Þangað til væri gaman að fá hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til að upplýsa okkur hvort þetta sé ekki satt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði. Er ekki satt og rétt að ríkisstjórnin hafði ekki þingmeirihluta nema með því að kaupa hann með ráðherrastól fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson? Ég tel afskaplega mikilvægt að hv. þingmaður upplýsi okkur (Forseti hringir.) um það hvort hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi verið að segja satt eða ekki.