138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er mikilvæg umræða sem hv. þm. Óli Björn Kárason hefur uppi hér vegna þess að eðlilega er mikið um það rætt í íslensku samfélagi með hvaða hætti lífeyrissjóðir verja þeim fjármunum sem íslenska þjóðin hefur lagt inn í þá. Það er hlutverk okkar sem störfum sem fulltrúar almennings á þinginu að veita þessum aðilum nauðsynlegt aðhald og spyrja spurninga sem vakna, m.a. vegna Framtakssjóðs Íslands og þeirra miklu fjárfestinga sem sá sjóður hefur staðið í að undanförnu. Ég tel að þar þurfi margt að útskýra betur fyrir okkur þingmönnum og kannski ekki síst fyrir íslensku þjóðinni.

Við höfum einungis tvær mínútur til að ræða þetta stóra mál en mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í eitt í ljósi umfangsmikilla fjárfestinga lífeyrissjóðanna á einkamarkaðnum: Finnst honum ekki hafa miðað allt of hægt í þá átt að vinna að mikilvægum samfélagslegum verkefnum, arðbærum verkefnum í samstarfi við stjórnvöld, sérstaklega á sviði samgöngumála, framkvæmda sem mundu skapa mörg störf hér á landi, miklar framfarir í íslensku samfélagi? Hefur áhersla lífeyrissjóðanna ekki verið um of á það að kaupa einkafyrirtæki í stað þess að drífa sig í það átak með íslenskum stjórnvöldum að ráðast í mikilvægar samgöngubætur hér á landi? Það er komið á annað ár síðan því var lýst yfir að menn ætluðu í slíkt samstarf, samstarf sem mundi skila ríkissjóði miklum ágóða og lífeyrissjóðunum líka og væri ekki eins áhættumikil fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina. Hvernig stendur á því, hæstv. fjármálaráðherra, að við erum ekki komin lengra í þeirri vegferð en raun ber vitni?

Það eru 13.000 Íslendingar án atvinnu í dag. Ein fjölskylda fer (Forseti hringir.) frá Íslandi á hverjum einasta degi. Við þurfum að slá í klárinn, koma þessum framkvæmdum af stað og ég spyr enn og aftur hæstv. ráðherra hvort hann telji að (Forseti hringir.) lífeyrissjóðirnir hafi forgangsraðað rétt í fjárfestingarstefnu sinni.