138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni vingjarnleg orð í minn garð sem féllu í umræðum áðan þegar ég sat hér í hliðarsal. Ég trúi því að hv. þingmaður vilji að vel verði staðið að sameiningu þessara ráðuneyta og að þau sjónarmið sem þurfa að koma fram komist á framfæri. Ég vil því í fyrsta lagi spyrja hann í hverju áhyggjur hans af velferð heilbrigðisstéttanna, sem hann tiltók hér áðan, felast. Í öðru lagi hvort hann telji ekki að hægt verði að taka á þeim þáttum sem kynnu að koma fram í þeirri vinnu sem fara mun fram, nú þegar gengið hefur verið frá því að einn ráðherra, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, mun fylgjast með og stjórna því verki hvernig ráðuneytin verða sameinuð. Ég tel einboðið að í þeirri vinnu muni bæði þessi ráðuneyti fara mjög vel yfir þá þætti sem að málinu snúa. Ég held að áhyggjur þingmannsins séu þess vegna óþarfar.