138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða örlítið niðurstöðu í skýrslu svokallaðrar sáttanefndar um úthlutun aflaheimilda sem hefur verið til umræðu undanfarna daga. Nefnd þessi hóf störf sem sáttanefnd en endaði því miður sem nefnd LÍÚ þar sem hagsmunir almennings virðast hafa verið fyrir borð bornir í málinu. Ég þakka hins vegar þeim fulltrúum í nefndinni sem stóðu vörð um hagsmuni almennings í þessu mikilvæga máli. Það eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, hv. þingkona og fulltrúi Vinstri grænna, og Finnbogi Vikar sjómaður, fulltrúi Hreyfingarinnar. Aðrir nefndarmenn, þar með talið þingmenn sem þó eru kjörnir af almenningi og til að gæta hagsmuna almennings, brugðust í þessu máli og tóku stöðu með sægreifunum. Þetta er því miður ekkert nýtt þegar þingmenn eru annars vegar en vonandi hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason þann kjark sem þarf til að fara ekki LÍÚ-leiðina sem skýrsluhöfundar nefna í bíræfni sinni samningsleiðina. Vonandi hafa aðrir þingmenn í þessum sal kjark til að taka stöðu með réttlætinu í þessu mikilvæga og einhverju mesta deilumáli undanfarinna 30 ára.