138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans, sérstaklega þann boðskap sem hann flutti þingheimi varðandi gjaldafrumskóginn, sem ég vil kalla svo, sem viðgengst á vegum hins opinbera. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir, að fullt tilefni sé til að nýta þennan dóm til að endurskoða alla þá gjaldtöku sem tengist hagsmunasamtökum í samfélaginu. Ég lét þess reyndar getið í framsöguræðu minni. Sú vinna er hafin á vegum framkvæmdarvaldsins. Forsætisráðuneytið hefur tekið þessi gjöld til skoðunar og er í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið með nokkur þessara gjalda sérstaklega til skoðunar. Ég veit ekki hvort það er viðeigandi að iðnaðarnefnd sem slík leggi fram þingmál um afnám gjalda sem eru á forræði annarra þingnefnda, en ég mun ekkert telja það eftir mér að leita eftir samstarfi við kollega í öðrum þingnefndum um heildarendurskoðun á þessum gjaldafrumskógi. Vissulega liggur fyrir í kjölfar þessa dóms að margar spurningar vakna um réttmæti annars konar gjaldtöku, eins og hv. þingmaður fór vel yfir í máli sínu. Það á við um bæði búnaðarmálagjaldið, það á við um svokallað aflagjald og ýmis önnur gjöld sem menn settu á á sínum tíma, eflaust með það fyrir augum að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. En það hefur verið ósiður í okkar stjórnkerfi að gjöld sem lögð eru á til að standa undir tímabundnum útlátum hafa tilhneigingu til að ílengjast í kerfinu. Ég tek heils hugar undir að við eigum að taka þetta til endurskoðunar núna.

Síðan fagna ég því að þingmaðurinn hafi gefið sér tíma þó seint væri í ræðustól til að lesa nefndarálitið og tek að sjálfsögðu undir orð (Forseti hringir.) hans.