138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki.

[10:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Svarið er mjög einfalt. Það er nei, ég vil ekki kyrrstöðu. Hv. þingmanni er kyrrstaða töm á tungu, ég held að við höfum fengið nóg af kyrrstöðu í meðferð skuldamála, jafnt heimila sem fyrirtækja. Það er vandamál efnahagslífsins í dag, stærsti vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Við bíðum eftir því núna að fá niðurstöðu Hæstaréttar í gengislánadómnum. Það mun greiða fyrir úrlausn skuldamála heimilanna (Gripið fram í.) sem bíða núna eftir því að mál komist af stað. Um leið og gengislánadómurinn fellur mun umboðsmaður skuldara geta tekið mjög hratt á málum skuldugra heimila.

Frekari kyrrstaða, hv. þingmaður, fyrir fyrirtækin í landinu er algjörlega óásættanleg. Bankakerfið verður að taka á skuldum fyrirtækjanna, koma þeim í boðlegt horf sem fyrst þannig að fyrirtækin verði í stakk búin til þess að fjölga fólki, til þess að skapa ný störf, til þess að efla fjárfestingu í landinu. Þetta er verkefnið, hv. þingmaður, ekki áframhaldandi kyrrstaða. Það eru skilaboðin til bankakerfisins. Bankakerfið á að mæta þörfum atvinnulífsins, bankakerfið á að koma skuldum fyrirtækja í það horf að þau geti staðið undir þeim, hratt og örugglega, og bankakerfið á að axla sjálft kostnaðinn af þeirri umbreytingu en ekki að ríkisvæða hann.