138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki.

[10:57]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur ríkt kyrrstaða í úrlausn erfiðra skuldamála allt of lengi. Það hefur ríkt frysting á framgangi nauðungarsalna frá því í febrúar 2009. Það er mikilvægt að þessi mál fari að komast á hreyfingu. Engum er greiði gerður með því að fresta nauðsynlegri aðlögun að raunveruleikanum jafnt hjá heimilum og fyrirtækjum.

Ég geng auðvitað út frá því að bankar fari varlega í innheimtu skulda og gangi ekki að fyrirtækjum eða fólki meðan réttargrundvöllur skuldbindinganna er óljós. Mér finnst það bara liggja í augum uppi. Hv. þingmaður þarf ekki að vera með neinn stórfelldan belging yfir því. Auðvitað er það bara þannig að það er óeðlilegt að bankarnir setji fólk eða fyrirtæki í þrot þegar réttarstaða er óljós og beðið er úrlausnar Hæstaréttar. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð. En kyrrstaða er ekki ásættanleg hvorki í atvinnulífi né í meðferð skulda heimila og fyrirtækja, hv. þingmaður.