138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í dag er talið að hátt í 40 þúsund íslensk heimili eigi í miklum erfiðleikum með það að ná endum saman um hver mánaðamót eða geti það einfaldlega alls ekki. Stór hluti af þessum heimilum hefur á undangengnum mánuðum gengið á lífeyrissparnað sinn sem nú er í mörgum tilfellum að verða uppurinn. Íslenskt atvinnulíf á í miklum erfiðleikum. Það kom síðast í þessari viku neyðarkall frá Samtökum atvinnulífsins vegna stöðunnar á vinnumarkaðnum.

Það er eðlilegt á þessum tímamótum að við spyrjum hvert við stefnum og hvað ríkisstjórnin ætlar sér í efnahags- og skattamálum þjóðarinnar. Það sem ríkisstjórnin hefur boðað eru meiri skattahækkanir. Talað hefur verið um að hækka skatta á heimili og fyrirtæki um 11 milljarða til viðbótar þeirri skattpíningu sem nú blasir við okkur og mörg heimili og fyrirtæki standa ekki undir.

Ef við rifjum upp störf ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur staðið að málum er það nú svo að ríkisstjórnin hefur svikið aðila vinnumarkaðarins, þjóðarsáttina sem gera átti í fyrra um það hvernig ætti að aðlaga ríkissjóð og afkomu hans að núverandi aðstæðum. Þá átti að skera niður ríkisútgjöld í aðlögunarþörfinni um 55% en hækka skatta á heimili og fyrirtæki um 45%.

Þegar við horfum á stöðu mála í dag er það staðreynd að skattahækkanirnar eru ekki 45% af aðlögunarþörfinni heldur 65%. Ríkisstjórnin hefur seilst í vasa heimila og fyrirtækja í miklu meiri mæli en gert var ráð fyrir í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var fyrir ári síðan enda var sá sáttmáli ekki við lýði nema í níu mánuði, þá sögðu aðilar vinnumarkaðarins sig frá honum. Það þurfti ekki nema eina meðgöngulengd til þess að ríkisstjórnin kæmi þessum aðilum frá borðinu með því að standa ekki við gefin fyrirheit.

Með öðrum orðum, dugleysi ríkisstjórnarinnar í glímunni við ríkisútgjöldin veldur því að heimilin og fyrirtækin eru að sligast undan sköttum. Dugleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum þjóðarinnar veldur því að skattpíningin er eins mikil og raun ber vitni og það á að halda áfram á þeirri braut. Það vekur mér ugg í brjósti ef menn ætla að halda áfram að hækka skatta á heimilin og fyrirtækin í landinu. Við búum í dag við það að 13 þúsund Íslendingar eru án atvinnu. Ein fjölskylda fer úr landi á degi hverjum. Hagvöxtur er ekki lengur við lýði. Það er því miður samkvæmt tölum Hagstofunnar frekar allt á hinn veginn, þ.e. samdráttur í íslensku samfélagi. Við stöndum hér á þessum tímamótum og hljótum að velta því fyrir okkur hvert við ætlum að stefna. Þola þessar þúsundir fjölskyldna auknar álögur? Þola fyrirtækin í landinu auknar álögur? Mitt svar er nei.

Ég vonast til þess að á þessu haustþingi náum við saman um það að gera einhverja vitræna hluti til að snúa vörn í sókn. Íslenskt samfélag í dag er því miður í vörn. Allar tölur og staðreyndir staðfesta það. En það er einn aðili í samfélaginu sem neitar að horfast í augu við þann raunveruleika og því miður er það sjálf ríkisstjórn Íslands. Það er vandamálið sem blasir við okkur í dag, að þora að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Við þurfum að stækka kökuna, við þurfum að ráðast í atvinnuuppbyggingu, við þurfum að fjölga störfum í samfélaginu og þannig að auka tekjur ríkissjóðs. En eins og frægt er hefur ríkisstjórnin staðið í vegi fyrir mjög mörgum mikilvægum framfaraskrefum í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar.

Hver er staða mála í dag? Við erum að borga 25 þúsund milljónir í atvinnuleysisbætur á ári vegna þess að fólk fær ekki vinnu við sitt hæfi. Þetta ástand er með öllu ólíðandi á Íslandi í dag og það er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera? Hyggst hún breyta um stefnu? Hún var kynnt hér sem ný ríkisstjórn. Ég get ekki heyrt að hér sé um nýja ríkisstjórn að ræða því að þetta eru sömu gömlu stefnumálin. Það á að hækka skatta á fólk og fyrirtæki. Ég kalla eftir breyttum áherslum og við hér í stjórnarandstöðunni erum reiðubúin að koma að því að breyta áherslunum, (Forseti hringir.) en þjóðin á rétt á því að heyra hvað ríkisstjórnin ætlar sér í raun og veru. Stendur það virkilega til að halda (Forseti hringir.) áfram að hækka skatta á fólk og fyrirtæki á Íslandi?