138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þau voru reyndar ekki mjög ákveðin. Ég spurði þriggja spurninga og fékk ekki svör við þeim.

Hér segir að það séu stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi sem bera mesta ábyrgð. Það er aldrei minnst á matsfyrirtækin sem gáfu bönkunum þetta mat AAA, hæsta mat sem hægt er að veita. Þannig lokkuðu þeir fjármagn til Íslands í því mæli sem ég kalla að vitleysingarnir lánuðu vitleysingunum. Þeir bera líka gífurlega ábyrgð þeir sem lánuðu þessa miklu peninga til Íslands sem komu aldrei til Íslands reyndar, þeir fóru allir beint út aftur. Það hefur ekki heldur verið rannsakað. Þessir peningar fóru í fjárfestingar um alla Evrópu og komu íslensku efnahagslífi ekkert við. Hér hefði allt farið á annan endann ef 40 millj. á hvern íbúa hefðu streymt inn í landið. Ég vil að menn skoði líka þessa ábyrgð.

Einnig vil ég að menn skoði veiluna í hlutabréfaforminu sem ég kom inn á í (Forseti hringir.) frumvarpi mínu um gagnsæi hlutafélags.