138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vinnuhópurinn sem forsætisráðherra skipaði til að fara yfir stjórnsýsluna var eflaust ágætur. Hins vegar leið manni á stundum eins og forsætisráðuneytið og forsætisráðherra sérstaklega væru að reyna að taka verkefnið svolítið af okkur í þingmannanefndinni og reyna að hafa áhrif — eins og ég fór aðeins yfir í ræðu minni — á störf nefndarinnar, þetta er mín persónulega skoðun. Það truflaði mig aðeins í störfum mínum, ég skal játa það.

Að sjálfsögðu á lagaskrifstofa, ef hennar er þörf, sem ég tel reyndar að sé, að vera hjá Alþingi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og vil hrósa hv. þingmanni fyrir að hafa lagt fram það frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Hins vegar þarf það að fara í ákveðna endurskoðun og ákveðna yfirlegu, helst hjá þingmönnum allra flokka svo að þar náist niðurstaða sem allir geti verið sáttir við. Að sjálfsögðu á hún að vera hjá þinginu en ekki (Forseti hringir.) hjá framkvæmdarvaldinu.