138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu þingmannanefndar sem sett var á laggirnar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við stöndum hér til að læra af fortíðinni og horfa til framtíðar. Við stöndum hér, þingmenn, á Alþingi Íslendinga til að læra og til að breyta þeim starfsháttum sem við höfum viðhaft um áratugaskeið — tala ég nú eins og ég hafi setið hér árum saman en hef setið stutt — en lítið hefur breyst. Satt best að segja er það dapurt hve lítið hefur breyst í verklagi og starfsháttum Alþingis þrátt fyrir hrun, þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að byggja Ísland upp að nýju úr þeim rústum sem urðu í efnahagshruninu. Þetta er meginmarkmið þingmanna, að læra, draga lærdóm af, breyta starfsháttum, vinna að nýju traust og trúnað þjóðarinnar og einhenda sér í lagabreytingar til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 er þungur áfellisdómur yfir starfsemi stærstu fjármálafyrirtæki landsins og starfshætti sem fengu að viðgangast í íslensku viðskiptalífi. En skýrslan, frú forseti, leiðir einnig í ljós alvarlegar brotalamir í stjórnkerfinu og mikið andvara- og fyrirhyggjuleysi ríkisstjórna og eftirlitsstofnana síðustu árin fyrir hrun og eftir hrun. Sá lagarammi sem sniðinn var fyrir íslenskt fjármála- og atvinnulíf reyndist í veigamiklum atriðum gallaður og á því ber Alþingi mesta ábyrgð.

Í dag er það verkefni sérstaks saksóknara að rannsaka starfsemi bankanna og fyrirtækja á undanförnum árum. Hlutverk hans er að sækja alla þá til saka sem með einum eða öðrum hætti gengu í berhögg við lög. Enginn vafi leikur á því í mínum huga að háttsemi innan fjármálakerfisins, einstakra fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa leiddi öðru fremur til falls íslensku bankanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að stjórnendur og stærstu eigendur bankanna hafi öðrum fremur borið ábyrgð á hvernig fór haustið 2008. Um það verður ekki deilt hér en eins og áður segir fellur það utan verksviðs þingmannanefndarinnar og er í höndum sérstaks saksóknara. En það verður einnig, frú forseti, að hafa í huga þegar við ræðum rannsóknarskýrslu Alþingis, þegar við ræðum niðurstöður í skýrslu þingmannanefndarinnar að alþjóðleg fjármálakreppa reið yfir heiminn með skelfilegum afleiðingum fyrir mörg lönd og hin alþjóðlega fjármálakreppa magnaði ástandið hér á landi og átti stóran þátt í því kerfishruni sem varð.

Virðulegi forseti. Þingmannanefndin er sammála helstu efnislegu niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis en ég vek athygli á því að ágreiningur hlýtur að vera um matskenndar niðurstöður og þá ekki síst er varða efnahagsmál og áhrif pólitískrar stefnu í ríkisfjármálum. Slíkur ágreiningur hefur hins vegar ekki — og ég ítreka það, frú forseti, hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir samstöðu í nefndinni um atriði sem mestu varðar til framtíðar.

Frá því að fjármálakerfið hrundi á Íslandi hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra ráðstafana. Sumt hefur verið fálmkennt og án nokkurrar skýrrar stefnu en öðru hefur miðað í rétta átt. Augljóst er að Alþingi hefur ekki tekið forustu í þeim efnum heldur hefur löggjafarsamkoman þvert á móti beðið eftir viðbrögðum og tillögum framkvæmdarvaldsins. Veikleiki löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu hefur þannig æ betur komið í ljós eftir því sem lengra líður frá hruni fjármálakerfisins. Þingmannanefndin lýsir áhyggjum sínum vegna þessa enda er það þungamiðja tillagna nefndarinnar að gera löggjafann óháðan og sjálfstæðan gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nefndarmenn eru eindregið þeirrar skoðunar að ósjálfstæði löggjafans og oft og tíðum yfirgangur framkvæmdarvaldsins á undanförnum áratugum hafi leitt til þess að lagasetning hafi ekki verið með þeim hætti sem almenningur á heimtingu á. Alþingi brást og sinnti ekki því aðhaldshlutverki sem því er falið gagnvart framkvæmdarvaldinu og þess vegna verður Alþingi að breyta vinnubrögðum sínum við setningu laga um leið og sjálfstæði þess er tryggt.

Virðulegur forseti. Þegar þeirri spurningu er svarað hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008 er ekki nægjanlegt að horfa til athafna eða athafnaleysis stjórnvalda síðustu mánuðina fyrir hrun. Það er ótækt, frú forseti, rætur vandans liggja dýpra en svo. Ekki verður annað séð en að alvarleg mistök hafi verið gerð við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands þegar horfið var frá þeirri stefnu stjórnvalda að setja hámark á eignarhlut einstakra hluthafa og tengdra aðila. Sú stefnubreyting sem varð í kjölfar töluverðra pólitískra átaka varð til þess að fámennur hópur náði öllum völdum innan íslenska fjármálakerfisins og afleiðing þess er rakin ágætlega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það má vel leiða rök að því að stefnubreyting ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessum efnum eigi stóran þátt í hvernig fór, þeirrar ríkisstjórnar sem hér sat frá 1999–2003.

Frú forseti. Ég vil sjálf taka fram að ég tel einkavæðingu bankanna hafa verið af hinu góða vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi almennt ekki að vasast í fyrirtækjarekstri af hvaða toga sem það kann að vera og stjórnmálamenn eiga aldrei undir nokkrum kringumstæðum að geta verið með puttana í bönkunum, hvorki í setu bankaráða né á öðrum sviðum. Ég vil taka það fram, frú forseti, að ég tel að rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands muni ekki leiða í ljós neitt sem okkur hér á þinginu sem og í samfélaginu öllu er ekki þegar kunnugt um. En ég vil jafnframt láta þess getið að ég mun ekki standa í vegi fyrir að slík rannsókn verði gerð eða ef einhverjum dytti í hug að láta fara fram rannsókn á því hvernig bankarnir sem komust í ríkiseigu í lok október 2008 voru færðir í einkaeigu árið 2010, ég mun heldur ekki standa í vegi fyrir slíkri rannsókn. Ég mun heldur ekki standa í vegi fyrir þeirri rannsókn að skoðað verði hvernig Landsbanki Íslands, sem er að fullu í ríkiseigu, seldi Framtakssjóði lífeyrissjóðanna stór fyrirtæki út úr Landsbankanum. Eftir allt sem við höfum talað um fram til dagsins í dag og við erum að ræða um í skýrslu þingmannanefndar um niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis hefur sáralítið sem ekkert breyst. Og ef við ætlum að kalla á rannsókn fortíðarinnar skulum við kalla á rannsókn nútíðarinnar.

Frú forseti. Í ljósi þess hvernig fór fyrir íslenska fjármálakerfinu öllu er vert að benda á að aðild Íslands að EES-samningnum opnaði íslenskum fjármálafyrirtækjum dyr að öðrum mörkuðum og það eru sterkar vísbendingar um, eins og ég hef áður rakið, að skipulag og fjárhagslegur styrkur íslenskra banka hafi ekki verið með þeim hætti að skynsamlegt hafi verið fyrir íslenska banka að ráðast í þá miklu útrás sem EES-samningurinn gerði þeim kleift að fara. En það er hvergi, frú forseti, hvorki í rannsóknarskýrslu Alþingis né í skýrslu þingmannanefndarinnar sem við áteljum þá stóru erlendu banka sem galopnuðu lánalínur til íslenskra fjármálafyrirtækja. Við höfum heldur ekki tekið á verklagi matsfyrirtækjanna né á gölluðum álagsprófum sem lutu alþjóðlegum stöðlum. Allt þetta er vert frekari skoðunar þegar farið verður í breytingar á löggjöf um fjármálafyrirtæki á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Skýrsla þingmannanefndarinnar er verðugt framtak og gott innlegg í þá umræðu sem við eigum eftir að eiga í samfélaginu og inni á þingi um það með hvaða hætti við viljum breyta samfélagi okkar, gera það betra eins og sumir segja, án þess að við vitum kannski akkúrat hvað við eigum við þegar við segjum betra. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki bara áfellisdómur yfir fjármálafyrirtækjum í landinu og hún er ekki bara áfellisdómur yfir þinginu og hvernig það hefur starfað, hún er áfellisdómur yfir stjórnvöldum og stjórnmálamönnum almennt, hún er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og því verklagi og skorti á formfestu sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Það er skelfilegt að lesa í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sjá að formfesta innan íslenskrar stjórnsýslu á meðal íslenskra ríkisstjórna er engin. Skráning upplýsinga liggur lítt fyrir. Verklag er ekki ljóst. Tímamörk eru sjaldan gefin og skýr ábyrgðarsvið eru engin. Allt þetta skiptir okkur í þessu litla samfélagi, Íslandi, meira máli en í öðrum og stærri samfélögum. Þetta er grunnur að því að við getum betrumbætt samfélagið, að við getum treyst því og trúað að þær ákvarðanir sem eru teknar séu byggðar á ferli sem er rekjanlegt.

Virðulegi forseti. Ákvarðanatöku fylgir ábyrgð. Það er sérlega dapurt að lesa í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sjá að 147 aðilar sem komu fyrir nefndina töldu sig ekki bera ábyrgð og vísuðu hver á annan. Það segir meira um íslenska stjórnsýslu en mörg orð. Þess vegna er það algerlega ljóst í mínum huga að íslensk stjórnsýsla hvort heldur er í ráðuneytum, hjá sveitarfélögum eða í stofnunum á vegum ríkisins eða Alþingis verður að taka breytingum, hún verður að taka miklum breytingum, hún verður eiginlega að byrja frá grunni. Þeir sem vinna í stjórnsýslunni, af því að stundum er sagt að Alþingi sé ekki stjórnsýslan því að Alþingi setur lögin sem öðrum er ætlað að fara eftir sem og alþingismönnum að sjálfsögðu sjálfum, hvort heldur hjá ríki eða sveitarfélögum, skynja ekki alltaf hlutverk sitt, þeir eru í vinnu fyrir borgarana hvort heldur það er í nærsamfélagi sveitarfélagsins eða stórsamfélaginu Ísland. Og við þingmenn á sama hátt, þó að stjórnsýsla nái ekki til okkar erum líka í vinnu fyrir stórsamfélagið Ísland. Það er mikilvægt að við lærum af þessum þætti sem svo glögglega fór úr skorðum og lesa má í rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannanefndin tekur heils hugar undir að við lærum af því. Öðruvísi náum við að mínu mati aldrei að bæta hvorki kerfið sem við ferðumst um í né samfélagið í heild sinni.

Ég sagði að skýrslan væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum. Hvað eru stjórnvöld? Oftar en ekki hefur maður í huga að það séu ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, borgarstjórn, bæjarstjórnir. Það eru stjórnvöld. Það eru aðilar sem taka beinar ákvarðanir sem varða aðra og þess heldur þarf sú ákvarðanataka að vera byggð á greiningu og mati, skýrum upplýsingum og ábyrgðasviði þeirra sem þær taka.

Við gagnrýnum í skýrslu þingmannanefndarinnar svokallað oddvitaræði. Innan þess eru oftar en ekki og ekki alltaf formenn stjórnmálaflokka. Formenn stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn skipta meira máli en oddvitar stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu eða er það svo? Það er ekki svo. Oddvitaræði stjórnarandstöðuformanna getur alveg orðið jafnvont og oddvitaræði þeirra sem stýra ríkisstjórn. Oddvitaræði er einfaldlega vont og á nákvæmlega sama hátt og flokksræði er skelfilegt. Við áteljum oddvitaræðið vegna þess að við segjum og dæmin sýna að mikilvægar ákvarðanir ekki bara í núverandi ríkisstjórn, fyrrverandi ríkisstjórn og ríkisstjórn þar á undan heldur í mörgum öðrum ríkisstjórnum hafa verið teknar af tveimur aðilum og jafnvel ekki bornar undir ríkisstjórnina sjálfa. Það er verklag, frú forseti, sem var óásættanlegt og er óásættanlegt.

Við gagnrýnum líka og leggjum hins vegar til tillögur fyrir Stjórnarráðið af því að oftar en ekki hefur mönnum orðið tíðrætt um pólitískar embættisveitingar ekki bara lögmanna eða hæstaréttardómara eða þessa eða hins, heldur líka pólitískar ráðningar inni í ráðuneytunum. Við leggjum til að settar verði sérstaklega reglur um það að þegar ráðherrar komi í ráðuneyti geti þeir haft með sér sína pólitísku samráðsmenn en það sé tryggt að þeir komi og fari með ráðherranum, því að miðað við það sem ég sagði áðan um stjórnsýsluna þá er afar brýnt að innan ráðuneytanna verði byggð upp mikil og góð fagþekking, hún er fyrir hendi en hún verði byggð upp enn frekar, sem ráðherrar sem koma þangað inn geta treyst að sé fyrir hendi. Þeirra er síðan að leggja sínar pólitísku línur í hverju ráðuneyti sem þeir svo sinna. Ráðherrar fara og ráðherrar koma og með þeim fer hirðin. Þannig á það að vera og fagþekkingin verður áfram í ráðuneytunum óháð því hver kemur inn næst.

Við segjum, frú forseti, í skýrslu okkar og þar erum við sammála skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að eftirlitsaðilarnir hafi brugðist. Stjórnsýslan brást líka þar. Þar eru samskipti manna eiginlega að mörgu leyti öllu verri en rekja má innan ríkisstjórnar. Það er brýnt að í lögum og reglum sé skýrt með hvaða hætti ætlast er til að stjórnsýslan starfi. Við áteljum samskipti forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjórnar Seðlabankans við erlenda aðila vegna þess að það er engin formfesta í þessum samskiptum. Það er ekki rekjanlegt hvar og hvenær og hvernig.

Við segjum líka eins og stendur að mig minnir, frú forseti, á bls. 9 í skýrslu þingmannanefndarinnar að við teljum að eftirlitsstofnanirnar hafi m.a. brugðist vegna þess að það var ekki skýrt hvaða stofnun hafi haft það mikilvæga hlutverk að hafa heildarsýn yfir kerfisáhættu, yfir fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á að samræma viðbrögð stjórnvalda við mögulegu fjármálaáfalli. Við leggjum til, frú forseti, að þegar að lokinni stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu verði vegnir og metnir kostir þess að sameina þessar stofnanir með einum eða öðrum hætti og að skýrt verði hvaða stofnun hefur það hlutverk sem ég nefndi áðan. Mín skoðun er sú, herra forseti, að það eigi að vera í höndum Seðlabanka Íslands.

Ég sagði í upphafi að það skipti meginmáli að við drögum lærdóm af þeim skýrslum sem gerðar hafa verið í aðdraganda hruns og eftir hrun, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar sem fékk það hlutverk að fjalla um rannsóknarskýrsluna og koma með tillögur að lagabreytingum sem eru margar og miklar. Ég treysti því, frú forseti, að þingmenn, formenn þingnefnda, forsætisnefnd taki á sig rögg og fari yfir þær tillögur sem eru að lagabreytingum og láti það verða sitt fyrsta verk á nýju þingi sem kemur saman í október að fara í þessar breytingar, gera gangskör að því að fara yfir allar þær tillögur sem hér er lagðar til. Það kann að vera að menn hafni ýmsu en þá er það líka allt í lagi verði það gert með rökum.

Í lok rannsóknarskýrslunnar, 7. bindi, er rætt um vanrækslu. Ég er þeirrar skoðunar að mörg mistök og stór hafi verið gerð, margt hefði getað verið gert með öðrum hætti þegar maður sér það á þeirri tímaleið sem rannsóknarskýrslan leiðir mann í gegnum. Og þá er auðvelt að líta til baka og segja: Ef þetta hefði verið gert á þessum stað og hitt á hinum staðnum þá kannski og ef.

Frú forseti. Á bls. 228 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi telur nefndin ástæðu til að undirstrika að það getur að hennar mati ekki verið skilyrði fyrir ályktun um að maður hafi sýnt af sér vanrækslu, t.d. við opinbert eftirlit með fjármálastarfseminni eða við stefnumörkun á því sviði, að sýnt þyki að aðgerðir þær eða ráðstafanir sem nefndin telur að honum hafi borið að hafa frumkvæði að hefðu einar og sér getað stuðlað að því að koma að öllu leyti í veg fyrir fall bankanna og tjón sem af því leiddi fyrir íslensku þjóðina. Hvorki rannsóknarnefndin né aðrir aðilar geta fullyrt um að beint orsakasamhengi sé á milli vanrækslu um slík atriði og þess fjármálaáfalls sem hér varð haustið 2008 né slegið því föstu hver innbyrðisþýðing hinna samverkandi þátta sem leiddu til þess hafi verið.“

Í þessu ljósi og af því að ég í hjarta mínu er sannfærð um og þess fullviss að allir ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007–2009 hafi verið að gera það sem þeir töldu skynsamlegast og best þá get ég ekki, frú forseti, hvorki tekið undir ályktun um vanrækslu né heldur málshöfðun á hendur ráðherrum fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Virðulegi forseti. Það er okkar að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og einnig þeirri skýrslu sem þingmannanefndin skilar, að taka til skoðunar ályktanir og niðurstöður þessara tveggja skýrslna til þess að við sem sitjum í þessum sal getum að nýju öðlast traust og trúnað til að okkur auðnist, frú forseti, að bæta samfélag okkar allra.