138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir ræðu hennar og mun styðja allar umbótatillögur sem lagðar verða fram. Ég ætla samt að segja að ég hef oft og tíðum verið afar ósáttur í þessum ræðustól yfir því hvernig málum hefur verið háttað á Alþingi. Mér hefur þótt stjórnarandstaðan vera fótumtroðin varðandi þann tímaramma sem henni hefur verið gefinn t.d. við að klára álit í nefndum. Ég veit að hæstv. forseti kannast við bréfaskriftir okkar á milli í þeim efnum en allir vita að nokkrar klukkustundir til að klára nefndarálit er ekki nægilega langur tími.

Það sem ég hef hins vegar verið að velta fyrir mér að undanförnu og oft komið upp í ræðustól til að ræða er samþætting framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Mér hefur lítið fundist þokast í þá átt og ég hef bent á að við fjárlagagerðina er svokölluð ríkisfjármálanefnd að störfum. Í henni eiga sæti formaður og varaformaður fjárlaganefndar ásamt einstaka ráðuneytismönnum. Þetta þýðir með öðrum orðum að þessi ríkisfjármálanefnd undirbýr fjárlögin og leggur þau fram til fjárlaganefndar þar sem sömu menn og sömdu frumvarpið, þ.e. formaður og varaformaður fjárlaganefndar, munu fjalla um eigin verk. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort hún sé reiðubúin nú þegar (Forseti hringir.) til að stöðva þetta þannig að við náum strax (Forseti hringir.) aðskilnaði á milli framkvæmdarvaldsins og (Forseti hringir.) löggjafarvaldsins.