138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um skýrslu þingmannanefndar sem fjallað hefur um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem lögð var fram fyrr á þessu ári. Þessi skýrsla er önnur, ef svo má segja, afurðin af tveimur sem vinna þingmannanefndarinnar hefur skilað af sér. Að lokinni umræðu um þessa skýrslu fer hins vegar fram umræða um ákærur sem sjö af þeim þingmönnum sem sæti áttu í þingmannanefndinni leggja til að gefnar verði út á hendur fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands. Um þær ákærur verða skiptar skoðanir hér í þingsölum og þeir alþingismenn sem hér sitja fá þá í hendur vald sem þeir hafa aldrei áður þurft að fara með, ákæruvald gagnvart einstaklingum sem lagt er til að refsað verði fyrir embættisfærslur sínar.

Ég ætlaði að reyna að forðast það í þessari umræðu að ræða um ákærurnar þó að þær og efni þeirra tengist óneitanlega ýmsu því sem fram kemur í skýrslunni. Sú umræða verður flókin, erfið og persónuleg og málið mun leggja gríðarlegar skyldur á herðar þeirra þingmanna sem hér sitja en þær lúta m.a. að virðingu þingmanna fyrir grundvallarmannréttindum, meginreglum sakamálaréttarfars og meginreglum um réttláta málsmeðferð. Það verður fróðlegt að sjá hvernig einstakir þingmenn munu rísa undir þeirri ábyrgð sinni.

Vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra hér áðan og þess sem fram hefur komið verð ég að segja að ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn í þeim efnum eftir að hafa hlustað á hv. þm. Lilju Mósesdóttur lýsa því yfir að fram undan séu pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggju, hv. þm. Þór Saari lýsa því yfir í Silfri Egils að fyrir landsdómi verði menn eftir atvikum dæmdir eftir öðru en lögum, hv. þm. Björn Val Gíslason snúa grundvallarréttarreglum sakamálaréttarfarsins upp í andhverfu sína og hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir að tilgangur ákærunnar sé sá að róa almenning, sem er að mínu mati einkennileg forsenda fyrir því að sækja fólk til saka og krefjast refsingar yfir því og samræmist illa meginreglum réttarríkisins.

Um þetta allt saman munum við auðvitað fjalla þegar þingsályktunartillögurnar um ákærurnar verða hér til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég hef viljað nálgast efni þessarar skýrslu með jákvæðu og uppbyggilegu hugarfari. Þó eru ýmis efnisatriði í þessari skýrslu sem ég get kannski ekki tekið undir og mér finnst uppbygging hennar að mörgu leyti furðuleg. Ég tel t.d. að það sé vandasamt að skrifa útdrátt úr langri skýrslu sem fyrir liggur og talar í raun máli sínu sjálf, að skrifa skýrslu um skýrslu þar sem sum mikilvæg efnisatriði rannsóknarskýrslu Alþingis eru tiltekin en önnur ekki. En þessa leið ákvað þingmannanefndin að fara.

Ég fagna því að þingmannanefndin skyldi einróma komast að þeirri niðurstöðu að hún telji að stjórnendur og aðaleigendur fjármálafyrirtækjanna beri mesta ábyrgð á hruni fjármálakerfisins. Í hinni pólitísku umræðu hafa ýmsir stjórnmálamenn nefnilega, t.d. hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, ítrekað skellt allri skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn og nafngreinda einstaklinga sem starfað hafa innan hans. En vonandi mun þessi skýrsla leiða til þess að þessum skotgrafahernaði ljúki, þótt ég sé ekkert sérstaklega vongóður um að sú verði raunin.

Það breytir því ekki að það er margt í þessari skýrslu sem er gott og við ættum að geta sammælst um, hvar í flokki sem við stöndum, þótt við séum ekki öll sammála þeim forsendum sem tillögurnar byggja á eða höfum efasemdir um útfærslu eða efni þeirra. Þetta segi ég vegna þess að ég ber mikla virðingu fyrir þessari stofnun sem við störfum við, hef metnað fyrir hönd stjórnsýslunnar í landinu og vil allt til þess vinna að hér verði gerðar breytingar á lögum sem horfa til bóta fyrir samfélag okkar, hvort sem þau varða hlutverk og stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, stjórnsýsluframkvæmd, löggjöf um fjármálamarkaðinn eða þá eftirlitsaðila sem þar starfa.

Við sjálfstæðismenn höfum alltaf viðurkennt að margt hafi farið aflaga í aðdraganda og í kjölfar hrunsins. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur til úrbóta hér á Alþingi frá hruni en því miður hefur meiri hlutinn ekki gert neitt með þær tillögur og varla virt þær viðlits, líklega vegna þess að þær koma frá Sjálfstæðisflokknum en ekki frá ríkisstjórnarflokkunum Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Margar þeirra umbótatillagna sem við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir, og þá sérstaklega formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, er hins vegar að finna í skýrslu þingmannanefndarinnar og því ber að fagna, en vissulega hefði maður viljað sjá Alþingi taka efnislega afstöðu til þeirra úr því að þær lágu fyrir hér á þinginu áður en þessi skýrsla kom fram.

Ég vil síðan segja það, virðulegi forseti, að ég vona að ríkisstjórnarflokkarnir meini eitthvað með þeim tillögum sem fram koma í þessari skýrslu og ætli sér í samráði við stjórnarandstöðuna að vinna að framgangi þeirra. Þótt stjórnarandstaðan á Alþingi gegni mikilvægu hlutverki á hverjum tíma þá er það þannig að ríkisstjórnarflokkarnir bera mesta ábyrgð á því að hrinda umbótum í framkvæmd. Stjórnarandstaðan hefur ekki þá þræði í hendi sér að geta upp á eigin spýtur gert þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Til þess hefur hún ekki styrk og sjaldnast áheyrn hjá meiri hlutanum á Alþingi.

Ég ætla að ræða örlítið um Alþingi og stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu en í skýrslunni er lögð mikil áhersla á að þingið verji og styrki sjálfstæði sitt og að störf og starfshættir á Alþingi verði færð til betri vegar. Raunar gekk formaður þingmannanefndarinnar svo langt að halda því fram að þessi skýrsla væri í raun sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Einstaka stjórnmálamenn, svo sem þeir sem nú leiða ríkisstjórnina, hafa í gegnum tíðina og sérstaklega áður en þeir settust í ráðherrastól haft uppi miklar heitstrengingar um nauðsyn þess að efla Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég hef setið á Alþingi með stuttu hléi frá árinu 2003. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar hér innan dyra. Ríkisstjórnir hafa komið og farið, mannabreytingar hafa verið gríðarlegar og þingsköpum Alþingis hefur verið gjörbreytt. Á þessum tíma hafa mörg gríðarlega erfið og flókin deilumál verið til umræðu, svo sem mál sem varða fjölmiðla, eftirlaun, stjórnarskrá og vatnamál svo eitthvað sé nefnt. Því miður verð ég að segja að ég tel og ég byggi það á reynslu minni að starfshættir hér á Alþingi hafi versnað á síðustu missirum. Ég tel að okkur hafi farið aftur. Og ég tel að staða Alþingis hafi veikst gagnvart framkvæmdarvaldinu þótt óumdeilt sé að samkvæmt stjórnskipun okkar eigi þingið að vera valdamesta stofnunin.

Eins og ég sagði er það mitt mat að því miður hafi okkur farið aftur og sérstaklega eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum. Ég get auðveldlega nefnt dæmi þeirri skoðun minni til stuðnings. Ég hafði t.d. ekki kynnst því þar til að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók hér völdin vorið 2009, hygg ég, ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn varði vantrausti, að grundvallarmál í refsilöggjöf okkar, frumvarp sem lá fyrir þinginu, væri afgreitt út úr allsherjarnefnd þingsins án umræðu, án umfjöllunar í nefndinni og án þess að einn sérfræðingur væri kallaður fyrir nefndina til að fjalla um málið. Það gerðist þegar núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var formaður allsherjarnefndar, þegar hin svokallaða sænska leið var leidd hér í lög með breytingum á almennum hegningarlögum. Það hafa oft komið upp deilumál eins og það hvort hér eigi að taka upp sænsku leiðina í íslenskum hegningarlögum og það er eðlilegt að til verksins séu kallaðir færustu sérfræðingar á því sviði og að þingmenn fái tækifæri til að fjalla efnislega um efni frumvarpsins. Það var ekki gert í þessu tilviki og ég hygg að það sé einsdæmi að þingnefnd hafi slíkt verklag uppi, a.m.k. hef ég ekki kynnst því frá því að ég settist á þing 2003.

Ég tel að vinnubrögðum hjá einstökum ráðuneytum hafi farið hrakandi og sérstaklega hjá einstökum ráðherrum. Þar nefni ég t.d. mál sem var svo illa unnið og illa undirbúið og án allrar stefnumörkunar að þingið sjálft þurfti að taka þau frumvörp sem voru nota bene gríðarlega mikilvæg og endurskrifa frá grunni. Þar á ég við frumvarp hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sem þá var félagsmálaráðherra, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lykilfrumvarp sem átti að taka á skuldavanda heimilanna en var algjörlega vanbúið og illa undirbúið þegar það kom hingað til þings. Þá hefur að mínu mati alþingismönnum í tíð þessarar ríkisstjórnar verið gert nánast ókleift að fá upplýsingar frá einstökum ráðherrum í einstökum málum og þeim hefur verið gert ómögulegt að gegna eftirlitshlutverki sínu sem mönnum verður svo tíðrætt um. Það gerðist t.d. þegar ég stóð hér og óskaði eftir upplýsingum um skipun og launakjör núverandi seðlabankastjóra og varpaði fram spurningum til hæstv. forsætisráðherra um það efni. En mér var svarað með útúrsnúningum og dylgjum og stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar gengu m.a.s. svo langt að væna mig, vegna þess að ég spurði hæstv. forsætisráðherra óþægilegra spurninga, um að hafa tekið við greiðslum frá aðilum úti í heimi í tengslum við Icesave-málið, sem er fullkomlega rangt og þeim ágæta hv. þingmanni sem það gerði til fullkominnar skammar.

Þá er nærtækt að nefna fyrirspurn formanns Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, til fjármálaráðherra hinn 3. júní 2009 þar sem þingmaðurinn spurði ráðherrann hvort til stæði að undirrita Icesave-samningana sem þá voru í burðarliðnum. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði spurningunni þannig að ekkert slíkt stæði til. Engu að síður voru samningarnir undirritaðir í hans umboði tveimur dögum síðar, þann 5. júní 2009. Í ljósi þessa sakna ég þess auðvitað að ekki sé lögð á það sérstök áhersla að ráðherrum sé gert að segja undanbragðalaust satt og rétt frá um það sem þeir eru spurðir um og að þeir svari þeim spurningum sem til þeirra er beint undanbragðalaust. Þau dæmi sem ég nefni hér sýna að fullt tilefni er til þess.

Í þriðja lagi blasir við, að mínu mati, að svokallað oddvitaræði hér á Alþingi hefur nú aukist frá því sem áður var. Þetta aukna oddvitaræði sýndi sig auðvitað best í Evrópusambandsmálinu fyrr á þessu kjörtímabili. Þar létu þingmenn Vinstri grænna sig hafa það að styðja aðildarumsókn að Evrópusambandinu þvert gegn stefnu eigin flokks og þvert gegn eigin sannfæringu vegna hótana formanns Samfylkingarinnar um stjórnarslit. Þetta oddvitaræði var eftirminnilega rammað inn í sérkennilegustu ræðu sem ég hef heyrt þegar hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, lýsti fullkominni andstöðu sinni við og andúð sinni á Evrópusambandinu og færði afar sannfærandi rök gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu en greiddi síðan atkvæði með því að sótt yrði um aðild. Allt þetta, virðulegi forseti, þarf auðvitað að breytast. Meini þingmannanefndin eitthvað með því sem fram kemur í skýrslu hennar um breytta starfshætti Alþingis og samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er mikil vinna fram undan og ekki síst gagnvart núverandi leiðtogum stjórnarflokkanna. Breytist þetta ekki mun ekki takast að koma á því nýja Alþingi sem að er stefnt.

Nokkuð hefur verið fjallað um þær rannsóknir sem lagðar eru til. Nefndin leggur til að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi og að aðdragandi og orsakir falls sparisjóðanna verði rannsakað. Ég lýsi því yfir að mér finnst sjálfsagt að í þessar rannsóknir verði ráðist. Það hefur líka verið mikið gert úr mikilvægi þess að rannsaka einkavæðingu bankanna. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að styðja að slík rannsókn fari fram telji menn að eitthvað sé enn þá órannsakað í þeim efnum. Við slíka rannsókn verða menn að halda öllu til haga, t.d. því hverjir það voru sem börðust helst gegn því að eignaraðild hinna einkavæddu banka yrði dreifð. Þar fóru fremstir í flokki núverandi forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, og hv. fyrrverandi þingmenn Sighvatur Björgvinsson og Ágúst Einarsson, allt forsvarsmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma. Það er rétt að halda þessu til haga vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um þessa rannsóknarbeiðni bæði hér á Alþingi og sömuleiðis opinberlega upp á síðkastið.

Ég sakna þess hins vegar sárlega að í þessari skýrslu sé ekki lagt til að farið verði í rannsókn á Icesave-málinu, rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda í samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld, þó að fullt tilefni sé til. Icesave-málið varðar nefnilega líklega mestu þjóðarhagsmuni sem íslensk stjórnvöld hafa þurft að takast á við og ýmislegt bendir til þess að með framgöngu sinni hafi þessi ríkisstjórn gert sig seka um mistök og vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið, farið út fyrir það samningsumboð sem Alþingi veitti henni, fallið frá lagalegum rétti ríkisins gagnvart viðsemjendum sínum og undirritað lánasamninga sem fyrirsjáanlega voru íslensku þjóðinni fjárhagslega ofviða þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það á sínum tíma að sú ákvörðun hafi ekki notið stuðnings meiri hluta alþingismanna.

Ég tel að telji nefndarmenn í þingmannanefndinni yfir höfuð tilefni til rannsókna af hálfu Alþingis ætti að ráðast í rannsókn á Icesave-málinu og ég hef lagt fram ítarlega þingsályktunartillögu þess efnis hér á þinginu sem ekki hefur fengist rædd. Þar eru tiltekin, hygg ég, öll þau gögn sem lögð hafa verið fram opinberlega í þessu máli. Þingsályktunartillagan byggist ekki síst á framgöngu núverandi ríkisstjórnar í Icesave-málinu með hliðsjón af þeim ábendingum og sjónarmiðum sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis, og þá einkum í 17. kafla þeirrar skýrslu.

Ég fæ ekki séð, virðulegi forseti, að nokkur maður, og þá allra síst nokkur alþingismaður, ætti að geta sett sig upp á móti slíkri rannsókn, a.m.k. ef menn telja sig hafa algjörlega hreinan skjöld í þeim efnum. Ég fæ ekki séð af hverju hæstv. ráðherrar, ef þeir eru mjög öruggir um sig og sínar embættisfærslur og það sem þeir hafa gert, framgöngu sína í Icesave-málinu, hvers vegna þeir ættu ekki að taka því fagnandi að þessari rannsókn verði komið á koppinn.

Ég mun auðvitað skoða það við framhald þessa máls hvort ekki sé ástæða til að gera breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem fylgir þeirri skýrslu sem við ræðum hér og leggja það til að Alþingi taki efnislega ákvörðun um það hvort það telji efni og ástæður til að ráðast í þessa rannsókn fyrst þingið og meiri hluti þingmannanefndarinnar telur að ástæða sé til að rannsaka sparisjóðina, lífeyrissjóðina og einkavæðingu bankanna. Að minnsta kosti tel ég, miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru, að full efni séu til að fara ofan í Icesave-málið, það sorglega mál sem við höfum kýtt hér um á síðustu missirum.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum störf þeirra. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hef ég reynt að nálgast efni og tillögur þessarar skýrslu með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Það er margt sem hefur farið úrskeiðis og margt sem fór aflaga í tengslum við þetta hrun, en það er jafnframt margt sem betur má fara í starfsemi Alþingis og sú skylda hvílir ekki síst á ríkisstjórnarflokkunum og meiri hlutanum að reyna að ná fram einhverjum breytingum í starfsemi okkar hér á Alþingi, en það verður þá einnig að gera það í samráði við stjórnarandstöðuna. Og nú tel ég að það reyni verulega á hæstvirta ráðherra í ríkisstjórninni og hv. þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum, hvort eitthvað sé að marka þær heitstrengingar sem þeir hafa haft uppi um samráð og samvinnu við þá sem í minni hluta eru.