138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en vil jafnframt segja henni að ég mun á haustþingi leggja fram skriflega fyrirspurn eða koma með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þetta. Ég held að mikilvægt sé að við sjáum að það er ekki eingöngu þingið sem er að taka til í sínum ranni heldur allir þeir miklu leikendur í samfélaginu sem þurfa að gera það líka, þar með talið fjölmiðlar, háskólar o.fl.

Ég fagna því að leitað verður eftir breiðri samstöðu varðandi háskólasamfélagið allt og ég vil líka láta sérstaklega í ljós ánægju mína varðandi aðra þætti sem ég tel mikilvæga við það að styrkja háskólasamfélagið enn frekar. Það eru m.a. þær fréttir sem við höfum fengið að frumkvæði menntamálaráðherra um að verið sé að skoða enn frekari samvinnu á milli háskólanna, sem eru margir hér á landi, með hugsanlega sameiningu í huga. Ég held að þetta sé algerlega nauðsynlegt. Við höfum stigið ákveðin skref í átt að sameiningu háskóla og þrátt fyrir að Vinstri grænir og Samfylking hafi verið algerlega á móti sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík þá erum við að sjá að það var rétt skref og síðan náðum við breiðri samstöðu með sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands. Ég tel að við eigum að taka stærri skref í þessa veru og mun fylgjast spennt með því hvernig þessum málum vindur fram hjá hæstv. menntamálaráðherra og lýsi mig reiðubúna til að styðja hana í þeirri viðleitni sinni.