138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þær skýringar sem hv. þingmaður og formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, gefur eru ekki boðlegar, að þingmannanefndin sjálf hafi sett sér verklagsreglur sem leiði til þess að mikilvæg gögn, sem snúa að þessum ákærum, skuli vera trúnaðarmál.

Í þessu máli taka þingmenn á Alþingi sér í hendur ákæruvald og ég hygg að það þekkist ekki í nokkru réttarríki og varla á byggðu bóli að fólk sem þarf að taka ákvörðun um það hvort ákæra eigi einstaklinga í þjóðfélaginu fái ekki í hendur öll gögn sem liggja fyrir um málið. Það liggja fyrir sérfræðigögn, álitsgerðir frá lögmönnum, lögfræðingum og minnisblöð þar um og við getum ekki tekið afstöðu til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir fyrr en við höfum séð öll þessi gögn. Og ég trúi ekki að hæstv. forseti ætli að láta þessa umræðu hefjast fyrr en þessi gögn hafa verið afhent okkur sem eigum að fara með þetta ákæruvald.