138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vildi bara ítreka þann skilning sem formaður þingmannanefndar lagði hér upp áðan, það var aldrei vilji hjá þingmannanefndinni til að halda neinum gögnum leyndum. (BirgJ: Heyr, heyr.) Það hefur aldrei staðið til að það væri einhver akkur okkar að halda einhverjum gögnum leyndum fyrir öðrum þingmönnum.

Við leggjum á það áherslu í vinnu okkar og tillögum að hér sé gagnsæi en ekki síður formfesta. Ég ítreka að við þurfum að starfa eftir þeim lögum og reglum sem gilda um starf þingmannanefndarinnar, hvort sem það eru þingsköp eða þær verklagsreglur sem við settum okkur. Ég ítreka enn og aftur svo það skiljist hér í þessum sal, og fjölmiðlar geta þá tekið upp, að það var og er enginn vilji hjá þingmannanefndinni til að halda neinum einustu gögnum leyndum fyrir öðrum þingmönnum. (BirgJ: Heyr, heyr.)