138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:18]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að andrúmsloftið hér á Alþingi þessa dagana veldur mér vanlíðan og nánast líkamlegum óþægindum. Það mál sem við ræðum hér er þinginu og þingmönnum erfitt og virðist draga fram það versta í fari margra þingmanna. Þetta er ógeðslegt.

Forseti. Það þykir góð þingvenja að nota ávarpsorðin „háttvirtur“ um þingmenn og „hæstvirtur“ um ráðherra. Ég hef ekki geð í mér til þess í dag og mun ekki gera það.

Í sumum ræðum hafa þingmenn reynt að halda því fram að eftir 2006 hafi ekkert verið hægt að gera og hafa kallað eftir upplýsingum um hvað betur hefði mátt fara, staðan hafi verið svo erfið að minnsta hreyfing hefði valdið hruni bankakerfisins. Mig langar að benda þeim sem þannig tala á að ef bankakerfið sem hrundi í október 2008 hefði hrunið fyrr, t.d. í apríl það sama ár, hefði t.d. mátt koma í veg fyrir innlánssöfnun Icesave í Hollandi. Það hefði líka verið hægt að stýra falli bankanna betur til að takmarka tjónið. Til þess hefði þurft hugrekki, kjark og þor í stað þeirrar pólitísku lömunarveiki sem greip um sig hjá íslenskum ráðamönnum og sýnir svo glöggt vanhæfi þeirra. Og ég trúi því að staða okkar væri betri ef ráðherrarnir hefðu ákveðið að tala af hreinskilni og heiðarleika, bæði við íslenskan almenning sem og erlenda ráðamenn. Ég held líka að gera verði skýra kröfu á æðsta yfirmann bankamála um að fylgja því eftir að Fjármálaeftirlitið sinni lögbundnu hlutverki sínu með viðunandi hætti. Þá held ég að það hefði átt að vera öllum ljóst að ráða hefði þurft einhverja af færustu efnahagsráðgjöfum heims til aðstoðar við verkefnið. Ráðherrarnir voru aðvaraðir en líkt og langt leiddir fíklar í afneitun lokuðu þeir eyrunum þegar erlendir seðlabankastjórar og ráðamenn vöruðu þá við. Og það sem mér finnst verst af öllu er sú skelfilega lygasöluherferð sem þetta fólk fór í fyrir bankana. Ég get ekki fyrirgefið það.

Í hruninu miðju sagði einn af þeim sem hér um ræðir að ekki ætti að persónugera hrunið. En hrunið er persónulegt. Það beindist gegn 320.000 Íslendingum og fjölmörgum útlendingum líka. Fólk er persónulega ábyrgt fyrir stökkbreyttum skuldum. Almenningur hefur fengið sendan reikninginn fyrir hruninu.

Forseti. Ef bréfberi ber ekki út póst vanrækir hann skyldur sínar. Ef bóndi sinnir ekki skepnum sínum vanrækir hann skyldur sínar. Ef foreldri fæðir ekki barn sitt vanrækir það skyldur sínar. Ef læknir lætur hjá líða að sinna veikum sjúklingi vanrækir hann skyldur sínar. Og ef ég kem að slysi ber mér skylda til að gera mitt til að bjarga lífi og limum, hringja í Neyðarlínuna og hjálpa þeim sem fyrir slysinu urðu, annars bregst ég bæði siðferðilegum og borgaralegum skyldum mínum. Ábyrgð okkar allra er mikil. Enginn annar en umræddir ráðherrar hefðu getað uppfyllt skyldur þeirra en þeir gerðu það ekki með viðunandi hætti.

Síðustu daga hef ég hugsað mikið um hæfi þingmanna og ráðherra til að taka á þessu máli. Víða í samfélaginu eru í gildi skynsamlegar hæfisreglur. Á sjúkrahúsum er það t.d. víða almenn regla að læknar og hjúkrunarfræðingar sinna ekki sjúklingum sem þeir eru tengdir. Mér finnst það blasa við hverjum heilvita manni að þeir þingmenn og ráðherrar sem hafa átt í persónulegum tengslum við eða setið á þingi með þeim fyrrverandi ráðherrum sem nefndir eru í þeim tillögum sem hér um ræðir eru ekki hæfir til að fjalla um þær. Þegar frumvarpið um þingmannanefndina var til umfjöllunar í þinginu bentu þingmenn Hreyfingarinnar ítrekað á að það yrði þinginu ofvaxið verkefni að draga fyrrum ráðherra til ábyrgðar. Nú hefur komið á daginn að við höfðum rétt fyrir okkur. Reyndar gafst þinginu einstakt tækifæri til þess að endurheimta trúverðugleika sinn þegar þessar tillögur komu fram. Þingið átti og varð að hefja sig upp fyrir hinn daglega skotgrafahernað og láta hvern og einn þingmann um að ákveða sjálfur hvort ákæra eigi það fólk sem gengdi lykilstöðum í aðdraganda hrunsins. Nú sé ég ekki betur en að þingið sé að klúðra því eins illa og hægt er. Þeir þingmenn sem hér þrasa eru að gera út af við það litla traust sem eftir er af virðingu þingsins.

Ógeðslegast finnst mér hvernig sumir þingmenn og meira að segja forsætisráðherra kasta rýrð á störf þingmannanefndarinnar og þá þingmenn sem standa að tillögunum. Hér er pólitísk vígastarfsemi á ferð og virðist tilgangurinn vera sá að kasta sektinni á nefndarmenn en ekki þá ráðherra sem báru ábyrgð í aðdraganda hrunsins. Það kallast á kjarnyrtri íslensku að hengja bakara fyrir smið. Mér finnst atlagan að formanni nefndarinnar og þeim tveimur þingmönnum sem þar eiga sæti fyrir Samfylkinguna sérlega viðurstyggileg.

Spyrja má að pólitískri ábyrgð og trúverðugleika Jóhönnu Sigurðardóttur sem að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, þáverandi aðstoðarmanns viðskiptaráðherra, tilheyrði svokölluðum súperráðherrahópi Þingvallastjórnarinnar sem kom fyrst að umfjöllun um stærri mál og mótaði stefnuna áður en aðrir ráðherrar komu að málinu. Samkvæmt Jóni Þór Sturlusyni samanstóð súperráðherrahópurinn af Geir Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, auk Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég get þó tekið undir það að ábyrgð þeirra ráðherra sem sátu á þingi við einkavæðingu bankanna, og þegar er fyrnd, er mikil og slæmt að ekki sé hægt að láta á hana reyna.

Forseti. Mér þykir einsýnt að þetta þing, þeir þingmenn sem nú eiga sæti á Alþingi, geti ekki afgreitt þetta mál. Ég vil gera það að tillögu minni að allir þingmenn og ráðherrar sem áttu sæti á þingi við hrunið víki sæti tímabundið og sendi inn varamenn og að varamenn taki ekki sæti nema þeir hafi ekki setið á þingi fyrir hrunið eða verið í persónulegum tengslum við umrædda ráðherra. Til að gæta jafnræðis og eyða tortryggni gagnvart þessari ráðstöfun tel ég einnig nauðsynlegt að við, sem tókum sæti hér árið 2009, víkjum á meðan málið er afgreitt og köllum inn varamenn. Ég tek það fram að ég hef ekki rætt málið við fyrsta varamann minn, ég veit ekki hver afstaða hans er í þessu máli en ég treysti því að hann mundi rýna í hjarta sitt og greiða atkvæði um þetta mál eftir sinni sannfæringu. Og það er ekki hægt að gera betur en það.