138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu þingmannanefndar Alþingis um að höfða beri mál á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum úr því sem kallað er annað ráðuneyti Geirs H. Haardes forsætisráðherra og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er stórmál og mikilvægt að Alþingi komist frá afgreiðslu þess með sóma því að ef því verður klúðrað með einhvers konar óþarfatöfum og -flækjum er farið forgörðum síðasta tækifæri Alþingis til að endurheimta trúverðugleika sinn meðal þjóðarinnar, trúverðugleika sem þegar seinast var mældur stóð í um 13%. Það eru, virðulegur forseti, 13% þjóðarinnar sem bera traust til Alþingis en 87% þjóðarinnar gera það ekki.

Tillögur þingmannanefndarinnar, þ.e. meiri hluta hennar, eru í þá veru að Alþingi hefji sakamál á hendur fjórum ráðherrum á grundvelli laga um ráðherraábyrgð og á grundvelli laga um landsdóm. Greinilegt er í rökstuðningi nefndarinnar að hún stígur varlega til jarðar og vandar sig mjög við framlagningu málsins. Sjálfur hef ég skoðað þetta mjög ítarlega og eftir því sem mér unnt sem leikmanni á sviði lögfræði get ég ekki séð annað en að tillögur þessar standist fyllilega skoðun. Ég hef einnig búið við þau forréttindi að hlusta á málflutning nefndarmanna sem og málflutning gagnrýnenda málsins sem margir hverjir eru lögfræðingar og ég get ekki séð að gagnrýnendur málsins hafi fært fram nein haldbær rök fyrir því að málið sé á einhvern hátt athugavert. Ekki síst var málflutningur varaformanns Sjálfstæðisflokksins í gær eftirtektarverður en eftir að hafa fengið þriggja daga þinghlé til að kynna sér málið flutti hún langa ræðu um ekki neitt.

Málflutningur formanns Sjálfstæðisflokksins í morgun var álíka holur og varaformannsins þar sem hann vísaði oftsinnis til þess að vegna þess að aldrei hefði verið gripið til þessara laga áður réttlætti það einhvern veginn aðgerðaleysi í þessu máli nú. Fyrir utan rökleysuna í slíkum málflutningi vil ég minna á að hér er verið að gera upp arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem samkvæmt lögum eru nú stikkfrí en eru það tvíeyki sem lagði grunninn að þessu hruni. Þetta hrun og áðurnefnt tvíeyki eru einfaldlega fordæmalaust í þingsögunni og ástæðan fyrir að þeir ráðherrar sem nú er lagt til að verði gerðir ábyrgir er sú að þeir fylgdu í einu og öllu hugmyndafræði og stjórnunaraðferðum þess sama tvíeykis. Tillögur formanns Sjálfstæðisflokksins voru líka krafa um áframhaldandi samtryggingu pólitískrar yfirstéttar, en þeirri kröfu fylgdi einnig lítt dulbúin hótun um einhvers konar pólitískt stríð ella. Það hefur því ekki beint verið gæfulegur málflutningur.

Í raun hefur verið lúmskt gaman að fylgjast með þeim rökfræðilegu og lögfræðilegu loftfimleikum sem sumir þingmenn hafa iðkað í gagnrýni sinni á tillöguna hér í þingsal, sem og utan hans. Gaman, segi ég, en þó jafnframt dapurlegt því að hér hafa þingmenn gengið of langt í flokkapólitíkinni og greinilegt er að flestum þingmönnum á Alþingi er fyrirmunað að komast upp úr hinum flokkspólitísku hjólförum sem þeir hafa eytt ævinni í, jafnvel í þessu mikilvægasta máli þingsögunnar. Það er dapurlegt en þá verður að hafa í huga að hér er einnig um að ræða þingmenn sem flestir hverjir voru í þingmeirihluta þeirrar ríkisstjórnar sem hafði á að skipa þeim ráðherrum sem nú er reynt að láta sæta ábyrgð, en 13 af núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og 10 af núverandi þingmönnum og/eða ráðherrum Samfylkingarinnar voru stuðningsmenn hrunstjórnarinnar.

Það var skoðun okkar í Hreyfingunni þegar lögin um þessa þingmannanefnd voru sett að þetta yrði óviðráðanlegt verkefni fyrir Alþingi vegna þess að þingmenn mundu ekki kæra samstarfsmenn og félaga. Það virðist nú að sýna sig að það er rétt.

Frú forseti. Að mínu mati er þetta uppgjör einn af mikilvægustu þáttunum við uppgjör hrunsins, ef ekki sá allra mikilvægasti, því að hér er einnig verið að gera upp alla þá löggjöf sem Alþingi bjó til og alla þá firringu sem átti sér stað hjá framkvæmdarvaldinu í aðdraganda hrunsins. Það er mikilvægt þegar haft er í huga að fjármálakerfið sem hrundi starfaði eftir lögum sem Alþingi setti og Alþingi átti að hafa eftirlit með og því eiga Alþingi sjálft og þeir þingmenn sem hér áttu hlut að máli einnig stóra sök í þessu máli.

Ef gera á hrunið upp með sómasamlegum hætti ættu að mínu mati miklu fleiri ráðherrar og fjölmargir þingmenn einnig að svara til saka, auk þeirra fjögurra ráðherra sem tilgreindir eru í tillögum þingmannanefndarinnar. Löggjöf okkar býður hins vegar ekki upp á það og útskýringar þingmannanefndarinnar á því eru góðar og gildar. Ef siðferði og ábyrgð væru hins vegar eðlilegur hluti af því að vera ráðherra og þingmaður á Íslandi ættu að mínu mati þeir þrír fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú eru þingmenn og þeir fimm fyrrverandi og/eða núverandi ráðherrar Samfylkingar sem sumir eru nú þingmenn skilyrðislaust að víkja úr embætti og af þingi. Hins vegar hafa einungis einn ráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, og einn þingmaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, til þessa haft nægt siðvit til að segja af sér vegna hrunsins. Allir þingmenn stjórnarflokkanna sem studdu þá ríkisstjórn ættu að sjálfsögðu að íhuga stöðu sína, ekki síst þeir þingmenn Samfylkingar sem voru á þingflokksfundunum tveimur í febrúar 2008 þar sem yfirvofandi bankahrun var kynnt. Í stað þess að þeir þingmenn upplýstu kjósendur sína um yfirvofandi hættu héldu þeir því leyndu fyrir þeim og horfðu á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei mundu standast og mundu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örskotsstundu. Hvaða vitneskju þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu um yfirvofandi hrun hefur ekki komið fram en áhugavert væri að þeir upplýstu um það hér úr ræðustól hvort og þá hvenær ráðherrar þeirra upplýstu þá um yfirvofandi hrun.

Staðan er hins vegar sú að allir sem komu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, alls 147, sögðust enga ábyrgð bera og allir sem skiluðu inn svörum til þingmannanefndarinnar sögðust enga ábyrgð bera. Það er dapurleg staðreynd um algert ábyrgðarleysi í íslenskum stjórnmálum og algert ábyrgðarleysi í íslenskri stjórnsýslu. Ef tillögur þingmannanefndarinnar verða ekki samþykktar verður þetta ábyrgðarleysi íslenskra stjórnmálamanna endanlega staðfest af Alþingi Íslendinga.

Að sjálfsögðu vekur þetta ábyrgðarleysi viðkomandi upp spurningar um ábyrgð stjórnmálamanna yfir höfuð og þær réttlætingar sem hafa fylgt launum, eftirlaunum og kjörum þeirra, réttlætingar sem hafa oftar en ekki komið út frá hinni gríðarmiklu ábyrgð sem þeir segjast bera. Nú er hins vegar komið í ljós að þeir sjálfir telja sig ekki bera neina ábyrgð og þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar virðast vera við það að formgera hið algera ábyrgðarleysi með því að draga þetta mál á langinn og reyna að eyðileggja það með endalausum flækjum. Það er því einboðið að leggja hv. þm. Þráni Bertelssyni lið á komandi haustþingi þegar hann endurflytur, vonandi, frumvarp sitt um afnám eftirlauna hinnar pólitísku yfirstéttar á Íslandi. Frumvarp Þráins gerir ráð fyrir að fara sömu leið og pólska þingið fór við afnám yfirstéttareftirlauna kommissara og ráðherra pólsku kommúnistastjórnarinnar og ekki seinna vænna enda virðast mér íslenskir ráðamenn ekki síður hafa misfarið með vald sitt en þeir pólsku.

Frú forseti. Það er ekki hægt að fara yfir þetta mál án þess að rifja upp hörmulegan málflutning hæstv. forsætisráðherra um málið hér í gær þar sem greinilegt var að hún hafði ekki kynnt sér þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar heldur fengið ræðuskrifara flokksins til að semja eitthvað sem hentaði Samfylkingunni og mætti nota til að komast frá ábyrgð í málinu. Ekki aðeins hafði hæstv. forsætisráðherra litla þekkingu á málinu og talaði um það út og suður með sama hætti og flestir sjálfstæðismenn hafa gert, heldur gerði hún lítið úr þingmannanefndinni og lýsti í raun vantrausti á störf hennar. Hér opinberaði formaður Samfylkingarinnar það algerlega að þar á bæ er enginn áhugi á pólitísku uppgjöri vegna hrunsins, heldur skal bökum snúið saman og nú með Sjálfstæðisflokknum í því að sópa pólitískri ábyrgð á hruninu undir teppið.

Fyrir kjósendur er ágætt að rifja það upp að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar vegna þess að innan raða flokksins var engum öðrum treyst til að rata með flokkinn aftur inn á siðvæddari brautir og „heilög Jóhanna“ var einnig helsta lógó Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni.

Það er því augljóst að eina leiðin út úr þessu öngstræti ábyrgðarleysis sem íslensk stjórnmál eru komin í eru nýjar kosningar þar sem almenningi gefst kostur á að segja álit sitt á verkum ríkisstjórnarflokkanna sem hafa svikið allt sem þeir lofuðu. Eða eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði svo eftirminnilega hér um daginn eitthvað á þá leið, að hér væri á ferðinni ríkisstjórn sem væri orðin uppiskroppa með kosningaloforð til að svíkja.

Frú forseti. Ég leyfi mér svo í lokin að beina þeirri spurningu til ráðherra, þingmanna og kjósenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort að þau muni halda áfram stuðningi sínum við ríkisstjórn sem ætlar sér ekki að fara í það pólitíska uppgjör sem þarf eftir hrunið. Mun VG virkilega standa fyrir því að algert ábyrgðarleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi ráðherra fái ekki viðeigandi lögskipaða meðferð og fari ekki fyrir viðeigandi dómstól?

Hvað Samfylkinguna varðar komu 10 nýir þingmenn inn á þing fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum. Tvö þeirra, fulltrúarnir í þingmannanefndinni, hafa sýnt mikinn kjark í þessu máli, en hin vil ég spyrja eftirfarandi: Komu þau hér inn á þing til að sópa hruninu undir teppið? Ef svo er, hvað ætla þau þá að gera næst?

Það er biturleg staðreynd að enn eru á þingi 23 þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem studdu hrunstjórnina og á meðan svo er mun Alþingi Íslendinga ekki geta stigið það skref sem þarf inn í framtíðina. Ég hef sjálfur alltaf verið þeirrar skoðunar að eftir viðlíka hrun og átti sér stað hér á landi þurfi a.m.k. tvennar, ef ekki þrennar, kosningar til að komast af stað að nýju. Það er ekki endilega skemmtileg tilhugsun og ég fagna henni ekki en því miður held ég að það sé óhjákvæmilegt og yrði óhjákvæmilegt í hvaða landi sem væri þar sem svona hrun hefði átt sér stað.

Það þarf því að boða til kosninga og því fyrr sem það er gert, því betra.