138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan: Það er með engu móti hægt að túlka það sem vantraust á nefndina að óskað sé eftir því að allsherjarnefnd fái málið til umfjöllunar. Ég vil leiðrétta hv. þingmann því að ekkert í sérlögunum um þingmannanefndina segir hver málsmeðferðin eigi að vera og hvert mál eigi að fara á milli umræðna, þar segir ekkert beinum orðum um það. Þess vegna verðum við að grípa til þingskapalaganna þar sem skýrt er að málum sé vísað til nefnda eftir efni þeirra. Þetta er ekki þingnefndarmál. Það er ekki nefndin öll sem flytur málið. Það eru annars vegar fimm þingmenn og hins vegar tveir þingmenn. Ég verð að segja að mér þykir mjög leitt að formaður nefndarinnar skuli líta þannig á að ég sé með þessari ósk að reyna að drepa málið eða svæfa það. Þvert á móti vil ég tryggja það þar sem hér er um alvörumál að ræða, þar sem um líf fólks er að ræða. Ég vil tryggja að farið sé eins vel yfir málið og hægt er og í þessu efni vil ég segja að betur sjá augu en auga.

Það er alveg rétt og ég ítreka að þeir níu þingmenn sem sitja í þingmannanefndinni hafa unnið ágætt starf. Ég er ekki með nokkru móti að kasta rýrð á þeirra störf. Þau eru búin að liggja yfir þessu máli — og hvað? Hvað eiga þau að gera milli umræðna? Ég veit ekki betur en allir þessir níu þingmenn, með tillöguflutningi sínum og þeim niðurstöðum sem þau komast að í tveimur þingsályktunartillögum og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins með því að koma ekki með tillögu, eru búin (Forseti hringir.) að gera upp hug sinn í þessu máli. Ég vil fá umfjöllun þeirra sem eru ekki algjörlega búin að (Forseti hringir.) kafa þannig ofan í málið að ekki megi breyta einu eða einu varðandi efni þess.