138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni fór ég yfir fundargerðir og skjalalista. Á skjalalista Alþingis eru náttúrlega bara munnlegar fyrirspurnir og skriflegar en ég gat þess að ég hefði ekki tæmandi yfirlit yfir það hvað hefði farið fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það er um að gera að hrósa þingflokki Vinstri grænna fyrir að hafa lagt ítrekað fram tillögur sem fólu t.d. í sér að endurskipuleggja fjármálakerfið á ákveðinn hátt en það sem ég var að skoða var aðdragandi hrunsins, ár á undan, hvort einhver þingmaður á hinu háa Alþingi hefði lagt fram lagafrumvarp sem tók beinlínis á þessum aðsteðjandi vanda, að bankarnir væru of stórir og gætu farið á hausinn. Var einhver með fyrirspurn um það hvort þeir væru nokkuð að fara á hausinn? Var það rætt í einhverjum þingnefndum? Það var þetta afmarkaða atriði sem ég var að skoða vegna þess að nú ætlum við mögulega að fara að refsa á grundvelli þess að menn hafi ekki verið nógu aðgátssamir varðandi þessa vá. (MÁ: … höfða mál?) Já, ef við ætlum mögulega að fara að höfða mál, já, já, (Gripið fram í.) mögulega refsa þá. Við verðum að hugsa málið alveg til enda.

Könnun mín skilaði þessum niðurstöðum.

Varðandi annað sem kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, ég vona að orð mín verði ekki túlkuð sem svo að ég sé að gefa því sem gerðist í aðdraganda hrunsins einhvers konar gæðastimpil. Mér fannst teknar mjög margar ámælisverðar ákvarðanir en mér fannst þær vera dæmi um slæma pólitík. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis nægir mér hvað það varðar og mér finnst ekki alveg augljóst heldur, ég er ekki jafnsannfærður um það (Forseti hringir.) svo út í það sé farið, að koma hefði mátt í veg fyrir þetta allt saman.