139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:18]
Horfa

Jórunn Einarsdóttir (Vg):

Góðir landsmenn. Það er undarlegt að standa hér og ætla sér að stappa stálinu í örvæntingarfulla þjóð sem stendur fyrir utan og mótmælir. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli á þessari stundu hvað við segjum. Ég vona hins vegar að í kvöld takist að einhverju leyti að sefa reiði almennings og vonandi kviknar líka ljós hjá einhverjum sem hér sitja.

Við upphaf þings er hefð fyrir því að líta yfir farinn veg og rifja upp fyrir almenningi öll þau stórmannlegu afrek og varnir sem hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hafa náð fram. Undanfarið hefur þessi upprifjun þó valdið meiri ótta en stolti. Traust á þessari rótgrónu stofnun er í molum og krafan um uppstokkun er orðin raunveruleg. Skortur á gagnrýni forustumanna ríkisstjórnarinnar, til að mynda gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og framgöngu nýju bankanna, hefur valdið vonbrigðum.

Orð eru til alls fyrst og mikilvægt að halda til haga því sem vel hefur tekist og það er vissulega margt, líkt og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa bent á. Brýnasta verkefnið fram undan snýr að skuldavanda heimilanna. Það verkefni verður að leysa í samvinnu við utanaðkomandi aðila eins og Hagsmunasamtök heimilanna og alla stjórnmálaflokka. Því fagna ég mjög ummælum hæstv. forsætisráðherra þar sem hún lýsir yfir vilja til frekara samstarfs og lýsir enn fremur yfir vonbrigðum með viðbrögð nýju bankanna þegar kemur að skuldaaðlögun fólks og fyrirtækja. Það er skref í rétta átt. Hv. þingmenn verða að vera tilbúnir til að brjóta odd af oflæti sínu og taka þátt af fullri alvöru.

Góðir landsmenn. Við megum aldrei gleyma því að góðærið mikla var fengið að láni og sá tími kemur ekki aftur. Skuldadagarnir eru hins vegar blákaldur veruleiki sem við þurfum því miður að horfast í augu við. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar ber þess glöggt merki. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem störfum í umboði þjóðarinnar að berjast í sameiningu fyrir því að ávallt skuli tryggt að allir landsmenn hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu sem og annarrar þjónustu. Í því felast raunveruleg mannréttindi og á þeim forsendum slær mitt vinstri sinnaða hjarta.

Það er því mikið fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin boðar hugmyndafræðilega breytingu á allri grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins og undir það taka fjölmargir starfsmenn innan heilbrigðisgeirans. Við verðum engu að síður að gera okkur grein fyrir því að það tekur tíma að byggja upp slíka grunnþjónustu. Þess vegna tel ég ógjörning að skera niður eins mikla sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og boðað er í fjárlagafrumvarpinu. Það skal hins vegar í minnum haft að margar þær sjúkrastofnanir sem um ræðir, já gott ef ekki allar, hafa alla tíð, líka í svokölluðu góðæri, þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum og mátt sín lítils í baráttunni við einkaframtakið innan heilbrigðisgeirans sem tröllreið hér öllu. Fyrir það getur fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem situr ekki hér, Guðlaugur Þór Þórðarson, ekki þrætt.

Á stundum hef ég óskað þess að hrunvaldarnir sjálfir undir forustu Sjálfstæðisflokks hefðu fengið að halda áfram að berjast við þetta skrímsli. Hrunvaldarnir sjálfir hefðu þá líka þurft að svara fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeir hefðu líka þurft að svara fyrir úrvinnslu Icesave og svo sannarlega hefðu þeir þurft að svara fyrir skelfilegan niðurskurð í velferðarþjónustunni, svo að dæmi séu tekin. Sem betur fer staldra ég stutt við það þegar ég hugsa til þess að okkur er kannski að takast það sem flestir aðrir töldu ógerlegt og okkur er jafnvel að takast það án þess að selja allar auðlindir okkar og án þess að leggja mestu byrðarnar á þá lægst launuðu.

Góðir landsmenn. Það er merkilegt að fá tækifæri til að kynnast þessum heimi, þingheimi, þar sem hópur fólks kemur saman í umboði heillar þjóðar. Það er því mikið áhyggjuefni þegar útlit er fyrir að stór hluti þingheims — ásamt forseta lýðveldisins — virðist algjörlega hafa glatað tengslum við umbjóðendur sína og situr enn í sömu skotgröfunum sem einungis eru til þess fallnar að tefja og eyðileggja hið mikla starf sem þarf að vinna. Í beinu framhaldi mætti hæglega velta því fyrir sér hversu margir sætu hér í öruggu starfi ef Alþingi væri fyrirtæki þar sem starfsmenn þyrftu af fullri alvöru að fylgja eftir stefnu fyrirtækisins. Það vill nefnilega svo til að stefnur og straumar breytast hvort sem manni líkar það betur eða verr og þá breytast hlutverkin í kjölfarið. Það er orðið löngu tímabært að hver og einn geri sér grein fyrir hlutverki sínu og stöðu og þeirri gríðarlegu ábyrgð sem því fylgir.

Góðir landsmenn. Verum áfram römm og stefnum fram á við með heiðarleika og auðmýkt að leiðarljósi. — Góðar stundir.