139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem áður hefur verið sagt. Ég held að við séum öll sammála um hver forgangsmálin í þinginu eru. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að orð eru ódýr og ég held að krafa almennings sé um aðgerðir. Það þýðir að ef við ætlum að gera þetta þurfum við að vinna mjög skipulega. Þingið er þannig samsett að við erum með fastanefndir fyrir ákveðna málaflokka og ég held að afskaplega mikilvægt sé að þeir sem stýra þingstörfum nýti þær nefndir sem best.

Ég bendi á eitt dæmi um mál, virðulegi forseti, sem hefði verið nær að við hefðum farið strax í en við skulum alla vega drífa okkur í núna og það eru gengisbundnu lánin. Dómur féll fyrir nokkrum vikum síðan. Ég fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins bað strax um fund í hv. viðskiptanefnd. Fundurinn hefur enn ekki verið haldinn og ég held að mjög skynsamlegt væri að hv. viðskiptanefnd settist yfir það mál (Forseti hringir.) og aðrar nefndir færu yfir önnur þau mál sem nauðsynlegt er að fara yfir.